Japönsk svefnhylki vinsæl í Reykjavík, maður er með sitt eigið lokað rými

Fyrsta hostelið sem býður upp á svoköllið svefnhylki opnaði í Reykjavík í desember. Galaxy Pod Hostel hefur fengið góðar viðtökur að sögn eigandans Sverris Guðmundssonar sem stefnir á að tvöfalda fjölda svefnhylkjanna fyrir sumarið. Þetta kemur fram á fréttavefnum Gay Iceland.

Galaxy Pod Hostel er staðsett á Laugavegi 172 og í samtali við Gay Iceland líkir Sverrir svefnhylkjunum við hylki á svipuðum gistiheimilum í Japan. „Rúmið er inni í hylkinu. Maður er með sitt eigið lokað rými og getur stýrt birtunni,“ segir hann.

Svo færðu spegil og öryggisskáp ásamt því að við ætlum að setja sjónvörp inn í hylkin áður sumarið kemur.

Tvö herbergi fyrir bæði kyn með átta svefnhylkjum er að finna í Galaxy Pod Hostel og eitt herbergi með sex svefnhylkjum sem er aðeins ætlað konum. Eftirspurnin er mikil en til stendur að opna 22 svefnhylkja herbergi og annað með tíu svefnhylkjum fyrir sumarið.

Svefnhylkjahótel finnast um víða veröld. Hugmyndin er japönsk en á síðustu árum hafa slík hótel opnað í London, New York og víðar. Sverrir segir á Gay Iceland að hugmyndin hafi komið þegar hann var að reyna að finna ferska nálgun í gistingu á Íslandi.

„Ég komst svo í samband við náunga sem var að opna svefnhylkjahótel í Kína. Ég kunni vel að meta hönnunina og fannst hún henta mér vel. Þannig að ég keypti allt frá Kína, meira að segja dýnurnar, sem er ástæðan fyrir lágum upphafskostnaði.“

Sverrir var viss um að hylkin yrðu vinsæl en viðbrögðin komu honum samt á óvart. „Viðskiptavinir okkar eru svo ánægðir og dómarnir sem við fáum á internetinu eru búnir að vera svo jákvæðir að við höfum ekki þurft að auglýsa mikið, sem er frábært!“

Auglýsing

læk

Instagram