Jennifer Lawrence um nektarmyndirnar: Ekki skandall heldur kynferðisglæpur

Jennifer Lawrence hefur rofið þögnina um nektarmyndirnar af henni sem tölvuþrjótur dreifði á internetinu í september. Lawrence er í viðtali í nýjasta tölublaði Vanity Fair. Hún segir að málið sé skandall heldur kynferðisglæpur.

Mikið magn stolinna mynda af Hollywood-stjörnum var dreift um netheima í byrjun september. Á meðal þeirra voru nektarmyndir af Óskarsverðlaunaleikkonunni Jennifer Lawrence. FBI rannsakar nú málið en Kim Kardashian, Emily Ratajowski, Avril Lavigne, Kate Bosworth, Kaley Cuoco, Vanessa Hudgens, Lake Bell, Gabrielle Union og Hayden Panettiere urðu einnig fyrir barðinu á tölvuþrjótunum ásamt fleiri leikkonum.

Lawrence segir í viðtalinu við Vanity Fair að þrátt fyrir að hún sé leikkona þá hafi hún ekki á einhvern hátt beðið um þetta:

Þetta er ekki eitthvað sem fylgir starfinu. Þetta er líkaminn minn og valið á að vera mitt. Að valið skuli ekki vera í mínum höndum er viðbjóðslegt. Ég trúi ekki að við búum í slíkum heimi.

Eftir að myndunum var stolið og dreift íhugaði Lawrence að senda frá sér yfirlýsingu eða jafnvel afsökunarbeiðni. Hún hætti við það.

„Ég þarf ekki að biðjast afsökunar á neinu. Ég var í ástríku, heilbrigðu, frábæru sambandi í fjögur ár. Þetta var fjarsamband og annað hvort var kærastinn minn að fara að skoða klám eða myndir af mér,“ sagði hún.

Lawrence fannst gróflega á sér brotið. „Þetta er ekki skandall. Þetta er kynferðisglæpur. Þetta er viðbjóðslegt,“ sagði hún.

„Það þarf að breyta lögunum og við þurfum að breytast. Þess vegna eru vefsíðurnar ábyrgar. Það er brotið á fólki kynferðislega og það fyrsta sem einhver hugsar er að græða á því. Þetta er ótrúlegt. Ég trúi ekki að nokkur maður geti verið svona óábyrgur og tómur að innan.“

Auglýsing

læk

Instagram