Karlmaður á fimmtugsaldri var á föstudag úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um ítrekuð kynferðisbrot gegn ungum pilti. Fréttablaðið greinir frá þessu en samkvæmt heimildum blaðsins beitti maðurinn piltinn ofbeldi yfir nokkurra ára skeið, þegar pilturinn var barn og unglingur.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir við Fréttablaðið að maður hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna máls, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Heimildir Fréttablaðsins herma að kæra vegna brota mannsins hafi borist lögreglu í síðustu viku og var maðurinn í kjölfarið handtekinn.