Kim Kardashian og Lady Gaga flýja heimili sín

Gríðarlegir skógareldar geysa nú í Kaliforníuríki en í norðurhluta ríkisins ríkir mikil ókyrrð og óvissa vegna eldanna. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og ekki er búist við því að ástandið muni skána á næstum dögum þar sem rakastig er mjög lágt og vindar á svæðinu eru sterkir.

Níu eru taldir af og er 35 manns saknað í bænum Paradise í norðurhluta Kaliforníu. Öllum 27 þúsund íbúum Paradise var gert að yfirgefa heimili sín en allt í allt hafa 75 þúsund heimili á svæðinu verið rýmd en þúsundir bygginga hafa orðið skógareldunum að bráð.

Þá ganga myndbönd manna á milli á samfélagsmiðlum sem sýna gríðarlega eyðileggingu eldanna og hvar fólk kemst í hann krappann við að reyna að flýja eldtungurnar.

Þrír stórir skógareldar geysa í fylkinu og í suðurhluta Kaliforníu, meðal annars í Malibu, eru heimili margra þekktra einstaklinga. Hollywood-stjörnur, þekktir söngvarar, leikarar og Kardashian-fjölskyldan hafa meðal annars þurft að flýja heimili sín.

Þá hefur sögufrægt myndver orðið eldinum að bráð í Agoura Hills. Frá því greina aðstandendur Paramount-búgarðsins en búgarðurinn var byggður af Paramount-myndverinu á gullaldartímabili Hollywood um miðjan þriðja áratug síðustu aldar. Margir af þekktustu vestrum Hollywood voru sviðsettir á búgarðinum og undanfarið hafði búgarðurinn verið notaður undir sögusvið vinsællar þáttaraðar HBO, Westworld.

Eyðilegging eldanna er því gríðarleg en stjörnur á borð við Kim og Khloé Kardashian, Cher og Lady Gaga hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum um afleiðingar eldanna.

Kim Kardashian West tvítaði á fimmtudagskvöldið að hún hafi flogið til Kaliforníu til þess að bregðast við eldunum og pakka niður persónulegum eigum úr húsi þeirra hjóna í Calabasas. Eiginmaður Kardashian West, rapparinn Kanye West, birti síðan færslu á eigin samfélagsmiðlum þar sem hann greindi frá því að fjölskyldan væri óhult og þakkaði aðdáendum sínum fyrir hlýju orðin.

Á föstudaginn greindi Kim svo frá því á Twitter-aðgangi sínum að húsið þeirra væri í bráðri hættu vegna eldanna.

Systir Kim, raunveruleikastjarnan Khloé Kardashian, þurfti einnig að flýja heimili sitt en hún greindi frá því á Twitter að hún hefði aldrei séð annað eins og hefði varla trúað eigin augum á meðan hún pakkaði saman eigum sínum og dóttur sinnar True í flýti. Þær systur virðast þó hafa komist saman í öruggt skjól en í gærkvöldi birti Kim mynd af sér að knúsa frænku sína True. Hafa systurnar báðar tvítað lofi og þökkum til slökkviliðsfólks á svæðinu og þakka þeim líf sitt.

Söngkonan Cher lýsti miklum áhyggjum yfir heimili sínu á Twitter en húsið hennar stendur í Malibu og hefur söngkonan búið þar á svæðinu síðan 1972. Hún segist eyðilögð og ekki getað hugsað sér að búa annars staðar.

Þá birti leik- og söngkonan Lady Gaga myndskeið á Instagram-reikningi sínum af því þegar hún flúði heimilið sitt og má sjá reykjarmökk í fjarska.

“Ég sit hérna með ykkur og velti þeim möguleika fyrir mér að húsið mitt fuðri upp” segir Lady Gaga á Twitter.

Fleiri stjörnur á borð við Caitlyn Jenner, Alyssa Milano, Jake Paul, Rainn Wilson og Guillermo Del Toro hafa tjáð sig um afleiðingar eldanna á samfélagsmiðlum en þrátt fyrir mikið eignatjón virðast stjörnurnar hafa komist heilu á höldnu frá hremmingum skógareldanna.

Auglýsing

læk

Instagram