Kynjaboð slá í gegn: Kökur upplýsa um kyn barna

Svokölluð kynjaboð eru að ryðja sér til rúms hér á landi. Þau fara þannig fram að væntanlegir foreldrar bjóða í kökuboð þar sem kakan upplýsir um kyn barnsins, yfirleitt með bleikum eða bláum lit.

Bakarinn Jói Fel segir að fólk panti bleikt eða blátt marsipan inn í kökurnar og sumir panti jafnvel bleika eða bláa botna. Hann segir einnig misjafnt hvort væntanlegir foreldrar viti sjálfir um kynið eða láti kökuna koma sér á óvart ásamt gestum sínum.

„Stundum fáum við lokað umslag frá spítalanum sem kemur öllum að óvörum,“ segir Jói, sem var á fullu í ræktinni þegar Nútíminn hafði samband. Hann bætir við að allur gangur sé fyrirkomulaginu. „Stundum veit maðurinn en ekki konan — eða öfugt.“

Hilli Hjall, bakarameistari hjá Sveinsbakaríi og einkaþjálfari, segir að kynjakökurnar séu pantaðar í hverri viku. „Við bökum stundum tvær kökur, bleika og bláa, svo kemur fólk á föstudegi með umslag og við segjum þeim hvor kakan er sú rétta,“ segir hann. „Fólk fær svo báðar kökurnar og býður upp á hina eftir á.“

Hilli játar að pressan sé mikil á bakarana að afhenda réttu kökuna:

Það þarf að vera gott plan, þetta má ekki klikka. Við myndum örugglega fá símtal ef við sendum vitlaust kyn.

Auglýsing

læk

Instagram