Auglýsing

Kristinn birtir myndband af sjálfum sér í maníu: „Ég var að fara að taka yfir heiminn“

Kristinn Rúnar Kristinsson hefur birt myndband á Youtube sem sýnir hann í maníu fyrir tveimur árum. Kristinn vill vekja fólk til umhugsunar um geðsjúkdóma segir stóran meirihluta Íslendinga hreinlega ekki vita hvað manía er. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.

„Ég hef ákveðið að birta maníumyndband af mér í þeim tilgangi að sýna fólki hvernig ástandið getur verið,“ segir Kristinn í samtali við Nútímann.

Ég get fullyrt að yfir 95% Íslendinga vita ekki hvað manía er þó að allir viti hvað þunglyndi sé. Þetta er hin hliðin af geðhvörfunum sem sem fáir vita hvernig lýsir sér.

Kristinn birti á dögunum pistil sem vakti talsverða athygli þar sem hann sagði frá því hvernig geðhvörfin bundu enda á drauma sína um atvinnumennsku í íþróttum. Hann hefur þrisvar farið í maníu og segir að sú sem sést í myndbandinu hafi verið skæðust.

„Mestu ranghugmyndirnar, mesta geðrofið og ég tók mig nánast alltaf upp á ensku,“ segir hann.

„Þetta átti að fara á Youtube og verða viral því ég var að fara að taka yfir heiminn. Ég mæli með að horfa á myndbandið með heyrnartólum því það er einn hlutinn sem heyrist frekar lágt.“

Kristinn segir að myndbandið veki eflaust kátínu. „Enda það glórulaust en manía getur hins vegar endað mjög illa,“ segir hann.

„Lokastig maníu er t.d. að hoppa ofan af háhýsi og halda að maður geti lifað það af eða hoppa út úr bíl á fleygiferð því að maður sé ódrepandi. Ég var sem betur fer stoppaður af áður en ástandið varð enn verra og þakka ég fjölskyldu minni, vinum og fagfólki fyrir að koma mér af stað aftur út í lífið.“

Kristinn þakkar líka félögum sínum Sindra og Ragnari fyrir hjálpina við að klippa myndbandið. „Algjörir fagmenn þessir drengir. Þeir eru einu mennirnir sem hafa séð þetta, ég á erfitt með að horfa sjálfur,“ segir hann.

„Ég var alltaf að pæla í að sýna bræðrum mínum þetta en lagði aldrei í það. Þar sem verkefnið mitt: „Vitundarvakning um geðsjúkdóma“ hefur fengið byr undir báða vængi undanfarið hugsaði ég með mér að einn liður í verkefninu væri að sýna sjálfan mig í maníu þó að það sé mjög skrýtið að horfa á sjálfan sig í þessu ástandi og að segja hluti sem maður myndi aldrei segja undir venjulegum kringumstæðum.“

Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing