„Glæsilegur gæsaleggur.“ – Matarkjallarinn

[the_ad_group id="3076"]

Fyrir stuttu heimsótti vinafólk mitt frá Bandaríkjunum Ísland í fyrsta sinn (Brian
og Larissa) og get ég fullvissað ykkur um að það sé fátt sem gerir jafn mikið fyrir
virðingu Íslendingsins gagnvart eigin þjóð og landi – eins og það að fá jákvætt
millistéttarfólk frá suðurríkjum Bandaríkjanna (lesist „salt jarðar“) í heimsókn;
allt sem snerti vort íslenska land var æðislegt – og orsakaði jafnvel hinn
óhátíðlegasti rúntur um rökkvaðan Mosfellsdalinn ótrúlega og einlæga lofræðu:

„Vá, sjáðu þetta fjall! Það er sem gríðarstór hluti landins reki fram úr jörðinni –
ég hef aldrei séð neitt slíkt á Flórída!“ sagði Brian.

Þar sem ég var svo innblásinn af þessum viðbrögðum kanans, gerði ég mitt
besta til að sýna þeim bestu hliðar landsins, einvörðungu: Við fórum upp í
Hallgrímskirkjuturninn og sáum Reykjavík með augum arnarins; við fengum
okkur einn eðalhund á Bæjarins Beztu; og við fórum Gullna Hringinn (útskýrði
ég fyrir þeim að Gullni Hringurinn væri nú ekki hringur, í sjálfu sér, heldur líktist
hann helst tilraun spastísks manns til þess að skissa hring – fullur.)

Síðasta kvöld kanans á landinu ákvað ég að gerast svolítið djarfur og bauð ég
þeim hjónum út að borða á stað sem ég hef aldrei fyrr heimsótt: Matarkjallarann
(sem er til húsa við Aðalstræti 2).
Á fallegu miðvikudagskvöldi gengum við niður tröppur Matarkjallarans og
inn í hálfdimman kjallarann. Mér fannst eins og að einhver rómantískur andi
gagnsýrði andrúmsloftið og byrjaði ég að örvænta. Velti ég því fyrir mér hvort
að ég væri nú enn og aftur orðinn að þessu margumrædda „þriðja hjóli?“ –
óviðeigandi hringlaga hlutur, í mannsmynd, sem snýst um möndul sinn í návist
tveggja elskenda?

[the_ad_group id="3077"]

En ég hristi þær efasemdir af mér undireins #denial.

Glaðlegur þjónn vísaði okkur til borðs og virtist staðurinn vera þéttsetinn; var
það greinilegt að túristinn hafði uppgötvað þennan stað á undan mér. En það
er alltaf í tísku að vera „fashionably late.“

Við pöntuðum okkur tvo forrétti: grillaðan lunda og gæsalegg, ásamt
hægelduðum þorski. Þorskurinn, sem var löðrandi í Hollandaise sósu, var góður
og lundinn var það líka. Hins vegar var það gæsaleggurinn, vafinn í einhvers
konar vorrúllu, sem stal senunni. Mér fannst hann himneskur og stangaðist
sú tilfinning bersýnilega á við trúleysi mitt. Það var eitthvað við áferðina sem
heillaði okkur öll.
Tók ég nú í sama streng og bandarísku hjónin í Mosfellsdal – og missti mig yfir
gæsaleggnum:

„Vá, smakkaðu þennan legg! Þetta er eins og að lítið hverfi í guðsríki skagi fram
af disknum. Ég hef aldrei smakkað annað eins!“

Í aðalrétt pantaði ég mér piparsteik og hjónin ákváðu að smakka grillað lamb.
Er við biðum eftir matnum sötruðum við rauðvín og töluðum um Dónald Trump.
Ég hef engar mætur á bandaríska auðkýfingnum og vinir mínir ekki heldur.
Ég lagði fram þá kenningu að Trump-arinn væri síðasti keisari Rómarveldisins
– og setti upp spekinslegan svip, vonaðist svo til þess að að ég yrði ekki beðinn
um að útskýra mál mitt nánar.

Ég veit ekkert.

Aðalréttirnir komu skömmu seinna og var vinafólk mitt sérstaklega hrifið
af lambinu. Vinur minn, hann Brian, sagðist langa til þess að grilla svona
lamb í Bandaríkjunum – en ég sagði honum að það væri í raun óhugsandi.
Matarkjallarinn væri greinilega að vinna með hágæða íslenskt lamb og
íslenska lambið myndi seint rata til Flórída.

Eftir aðalréttinn vorum við Brian of mettaðir til þess að panta eftirrétt. En Larissa
lét slag standa. Hún pantaði sér Créme Brulée með appelsínu sorbet og lakkrís.
Kokkurinn sjálfur framreiddi eftirréttinn og útskýrði fyrir okkur hugmyndina á
bakvið hann: „Þetta er óður til æskunnar. Þegar ég var ungur drakk ég reglulega
appelsín með lakkrísröri.“ Falleg saga um sérdeilis bragðgóðan eftirrétt.

Við gengum út alsæl.

Stuttu seinna fór ég sjálfur til Flórída og skyldi betur hrifningu vina minna á
reykvískri matarmenningu: Við erum á allt öðru „level-i,“ sérstaklega hvað
varðar framreiðslu matar og gæði hráefnis.

Matarkjallarinn gefur ekkert eftir í þeim efnum.

Orð: RTH

Auglýsing

læk

Instagram