Landsliðskonu nauðgað af keppenda frá öðru landi í keppnisferðalagi erlendis: „Ég sagði nei og það er meira en nóg“

[the_ad_group id="3076"]

Tinnu Óðinsdóttur, afrekskonu í áhaldafimleikum, var nauðgað af landsliðsmanni frá öðru landi í keppnisferðalagi í Þýskalandi með íslenska landsliðinu í fimleikum. „Mér finnst mjög erfitt að segja frá þessu,“ segir Tinna sem hefur ákveðið að stíga fram og segja frá ofbeldinu á Nútímanum í þeirri von að saga hennar hjálpi einhverjum í svipaðri stöðu.

Tinna er margfaldur bikarmeistari með liðum sínum og er ein af íslensku landsliðskonunum sem urðu Norðurlandameistarar árið 2016. Í viðtali við Nútímann segir hún að um hefðbundna landsliðsferð hafi verið að ræða. Það var mikið æft og aðeins hugsað um mótið. „Auðvitað hafði ég ekki hugmynd um að líf mitt væri að fara að breytast til frambúðar,“ segir hún.

Þúsundir íslenskra kvenna hafa stigið fram undanfarnar vikur og sagt frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir í störfum sínum. Kassamerkið #MeToo hefur verið notað til að halda utan um umræðuna en íþróttakonur stigu nýlega fram og sögðust ekki sætta sig við mismunun, ofbeldi eða áreitni. Þær kalla eftir breytingum og krefjast þess að málið sé tekið föstum tökum, að öll íþróttafélög, sérsambönd, þjálfarar og aðrir innan íþróttanna, líti í eigin barm og lofi stúlkum og konum breytingum til frambúðar.

Andrúmsloftið gjörbreyttist

„Á lokahófinu var ég með mínum vinum og var að hafa gaman. Þetta var síðasta mótið á tímabilinu og við fórum á skemmtistað með öllum keppendum mótsins. Það var mjög gaman og það voru strákar frá öðru landi með okkur sem svo þróaðist út í að þeir buðu okkur stelpunum upp á hótel þar sem að skemmtistaðurinn var að loka.“

[the_ad_group id="3077"]

Þær fóru upp á hótel og skemmtu sér vel í fyrstu en andrúmsloftið gjörbreyttist þegar fólk fór að týnast heim. „Ég og vinkona mín vorum eftir á hótelinu að spjalla en allt í einu breyttist andrúmsloftið og allt varð öðruvísi. Við funduð þetta augljóslega báðar og horfðum hvor á aðra og vildum komast í burtu en það var þá sem þetta byrjaði allt.“

Tinna lýsir því hvernig mennirnir, sem voru landsliðsmenn frá öðru landi, héldu henni niðri og reyndu að kyssa hana. „Það var þá sem vinkona mín bara fór. Hún áttaði sig á að við vorum gjörsigraðar í þessum aðstæðum.“

Tveir menn héldu Tinnu niðri á meðan sá þriðji nauðgaði henni og hún segist hafa gefist upp eftir að hafa ítrekað sagt þeim að hætta. „Það á alveg að vera nóg. Þeir gerðu sér alveg grein fyrir hvað þeir voru að gera. Ég varð alveg máttlaus og ég gerði mér grein fyrir því að ég var ekki að fara að komast neitt í bráð,“ segir hún.

„Ég fann líkamlega ekkert fyrir þessu. Það var eins og heilinn í mér hafi blokkað allt út. Ég fór einhvern veginn úr líkama mínum og horfði á þetta gerast. Ég geri mér einfaldlega ekki grein fyrir hversu langan tíma þetta tók. Ég var að reyna að hugsa um eitthvað annað — sjá fyrir mér framhaldið og reyna að mikla þetta ekki fyrir mér.“

Mennirnir hentu loks fötunum í hana og hleyptu henni út. „Mér hefur aldrei liðið jafn skítugri á ævinni. Hann henti mér inn í lyftuna og ég hugsaði með mér: „Þetta er ekki búið. Þetta er rétt að byrja“ og á því augnabliki var mér eiginlega alveg sama. Það var búið að skemma mig og ég var ekki hrædd lengur. Ég var alveg dofin.“

Þakklát foreldrum sínum

Tinna var 22 ára gömul þegar atvikið átti sér stað og segir að líf sitt hafi hrunið. „Mér fannst ég alein. Það skildi mig enginn. Ég á yfirleitt mjög auðvelt með að tjá mig en samt var ég einangruð og geymdi þessar tilfinningar djúpt innra með mér.“

Hún var búsett í Danmörku á þessum tíma og fór þangað með flugi daginn eftir. Landsliðshópurinn fór hins vegar til Íslands þannig að hún hitti þau ekki meira í ferðinni. Kærastinn hennar sótti hana á flugvöllinn og hún ræddi ekkert um það sem hafði gerst daginn áður.

„Dagarnir liðu og ég varð dofnari og dofnari og einhvern veginn sama um allt og alla. Ég kom illa fram við fjölskyldu mína og vini og byrjaði að ljúga tilgangslausum hlutum. Mér var svo slétt sama sem er alls ekki mér líkt.  Mér fannst ég svo tóm. Fann engar tilfinningar og var alveg sama um allt. Ég var aldrei mjög glöð eða mjög reið. Og á enn þann dag í dag erfitt með að finna fyrir miklum tilfinningum en það er allt að koma.“

Hálfu ári síðar sagði hún foreldrum sínum frá þessu og segist hafa upplifað mikinn létti. Hún segir að þá hafi boltinn farið að rúlla og að hún verði foreldrum sínum ævinlega þakklát. „Ástæðan fyrir því að ég sagði þeim frá þessu svona seint er alls ekki vegna þess að ég var hrædd við viðbrögðin eða að þau myndu dæma mig eða neitt slíkt, heldur var það einfaldlega vegna þess að ég var að reyna að hlífa þeim. Ég vildi ekki láta þeim líða illa út af mér og ég vildi alls ekki láta vorkenna mér eða láta fólk sjá  mig sem einhvers konar fórnarlamb. Og þetta einkennir mig svolítið sem einstakling; ég vil ekki að fólk hafi áhyggjur af mér og ég vil ekki vera ástæðan fyrir að einhverjum líður illa.“

„Ertu alveg 100 prósent á því að þú sagðir nei?“

Tinna segir ótrúlegt hversu oft henni finnst hún þurfa að sanna fyrir fólki að hún sagði nei. Enn þann dag í dag fær hún spurningar eins og: „Ertu alveg 100 prósent á því að þú sagðir nei?“, „Af hverju öskraðirðu ekki?“ og „Af hverju fórstu ekki niður í lobbí og tilkynntir þetta um leið og þetta var búið?“

Hún segist réttilega ekki þurfa að afsaka þetta neitt. „Ég sagði nei og það er meira en nóg. Ég öskraði ekki vegna þess að ég var of hrædd. Ég vildi láta eins lítið fyrir mér fara og mögulegt var. Og þegar þetta var búið og ég gekk á áleiðis á hótelið mitt þá var ekkert að gerast í hausnum á mér. Ég var ekkert. Ég gekk eins og vofa. Alein úti í Þýskalandi og vissi einhvern veginn ekkert hvað ég átti að gera eða hvert ég átti að fara. Ég gat ekki einu sinni grátið. Ég áttaði mig ekki hvað hefði gerst. Þetta var svo mikið sjokk og ég var alveg tóm. Ég vafraði um göturnar um niðdimma nótt og og var gjörsamlega týnd.“

Tinna segist hafa komist að því hverjir voru vinir hennar í raun á þessum tíma. „Það kom mér á óvart hverjir voru ekki til staðar þegar upp var staðið og í dag á ég færri en mun betri vini,“ segir hún. „Fólk heldur kannski að maður komist bara yfir þetta en það er ekki svona auðvelt. Maður kemst ekkert bara yfir svona. Maður lærir að lifa með þessu en þetta fylgir manni alla ævi. Tíminn læknar sár — en ekki minningar.“

Það er ekki langt síðan Tinna sagði forsvarsfólki Fimleikasambands Íslands frá reynslu sinni og segist hún hafa fengið mikinn stuðning úr þeirri átt. „Þau voru til staðar fyrir mig, hvöttu mig til að stíga fram og vildu aðstoða mig ef ég vildi kæra,“ segir hún.

Tinna er einnig þakklát fólkinu sem stendur henni næst og segist vera mjög rík. „Þrátt fyrir það þá er það ég sem þarf að tækla þetta þegar upp er staðið. Það er ég sem þarf að geta horft í spegilinn og verið ánægð með það sem ég sé og borið virðingu fyrir sjálfri mér. Ég er svo þakklát fyrir þá manneskju sem ég er í dag og það er að miklu leyti mömmu að þakka. Hún er án efa sterkasta kona sem ég þekki. Ég hef alltaf tekið mér hana til fyrirmyndar og ég mun gera það alla ævi.

Ég er komin svo langt og ég trúði ekki að ég gæti komist á þennan stað sem ég er á í dag. Ég tók þá ákvörðun að nota þetta áfall sem tækifæri og líta á þetta sem reynslu. Ég er allt önnur manneskja í dag og ég hef þroskast gríðarlega mikið á þessum tíma. Þetta gerðist og ég get ekki tekið þetta til baka en ég get nýtt reynslu mína til að hjálpa öðrum. Minningin lifir og maður lærir mjög mikið á að takast á við áföll eins og þessi.“

Auglýsing

læk

Instagram