Launahæsti kvenforstjóri Bandaríkjanna var áður karlmaður

Aðeins fimm prósent fyrirtækjanna á Fortune 500-listanum, yfir stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna, er stýrt af konum. Þá eru aðeins 11 konur á listanum yfir 200 launahæstu forstjórana og meðallaun þeirra eru 1,6 milljón dölum lægri en karlforstjóranna. Á Íslandi er hlutfallið litlu betra — 21 kona er á lista yfir 200 launahæstu forstjórana hér á landi.

„Ég get ekki sagt að árangur minn jafngildi árangrinum sem konur hafa náð. Ég var karlmaður á fyrri helmingi ævi minnar,“ segir hin 59 ára gamla Martine Rothblatt, stofnandi lyfjafyrirtækisins United Therapeutics, í viðtali í New York Magazine.

Rothblatt er launahæsti kvenforstjóri Bandaríkjanna en hún þénaði 38 milljón dali á síðasta ári. Það eru rúmlega fjórir og hálfur milljarður íslenskra króna. Rothblatt skýtur þannig konum á borð við Meg Whitman, forstjóra Hewlett-Packard og Marissu Mayer, forstjóra Yahoo, ref fyrir rass. Það sem gerir sögu Rothblatt sérstaka er að hún var áður karlmaður en lét leiðrétta kyn sitt. „Þetta er eins og að vinna í lottóinu,“ segir Rothblatt um að vera í efsta sæti listans.

Martine Rothblatt lét leiðrétta kyn sitt árið 1994, þá fertug, og ári síðar gaf hún út bókina The Apartheid of Sex. Þar skrifaði hún. „Jarðarbúar eru fimm milljarðar og það eru fimm milljarðar einstakar kynferðislegar sjálfsmyndir. Kynfæri eru jafn óviðkomandi hlutverki fólks í samfélaginu og húðlitur. Að flokka fólk eftir kyni er eins rangt og flokka fólk eftir kynþætti.“

Smelltu hér til að lesa viðtali við Rothblatt.

Auglýsing

læk

Instagram