Níu ára drengur á leiðinni í Snælandsskóla brást rétt við í morgun þegar ókunnugur maður á svörtum jepplingi reyndi að lokka hann upp í bílinn. Drengurinn segir manninn hafa sagt honum að móðir hans hafi lent í umferðarslysi áður en hann bauð honum upp í bílinn.
Í umfjöllun Vísis kemur fram að drengurinn hafi ekki fallið fyrir tilraun mannsins. Hann hljóp í skólann og tilkynnti málið til skólastjóra. Magnea Einarsdóttir, skólastjóri í Snælandsskóla, segir í samtali við Vísi að haft hafi verið samband við móður drengsins og lögregluna ásamt því að póstur var sendur á foreldra allra barna í skólanum.
Á mbl.is kemur fram að lögreglan í rannsaki nú málið en ekki er búið að hafa uppi á manninum. Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar við Dalvegi, segir í samtali við mbl.is að drengurinn hafi brugðist hárrétt við aðstæðum.
Hann stóð sig vel í þessu, þetta hefur ekki verið skemmtileg upplifun fyrir hann. Hann tók rétta ákvörðun.
Þau sem kunna að hafa orðið vitni að þessu eða hafa upplýsingar um málið eru beðin um að hafa samband við lögreglu. Þá eru foreldrar hvattir til að minna börn sín á að fara aldrei upp í bíl með ókunnugum.