Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók gráum, Toyota Land Cruiser jeppa á mann á reiðhjóli á gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarvogs, föstudagsmorguninn 2. febrúar.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að ökumaðurinn hafi stoppað og hugað að reiðhjólmanninum á vettvangi. Hann hélt síðan för sinni áfram án þess að skilja eftir nauðsynlegar upplýsingar. Síðar kom í ljós að reiðhjólamaðurinn slasaðist og reiðhjólið er skemmt.
Lögreglan biður ökumanninn um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að óhappinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444-1000. Upplýsingum um málið má sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gisli.arnason@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.