Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir ekkert benda til íkveikju í eldsvoðum í Mosfellsbæ og Grafarvogi í nótt. Tæknideild vinnur nú að því að fara yfir gögn sem safnað var saman á vettvangi. Rúv.is greinir frá þessu.
Tólf voru fluttir á slysadeild og einn liggur á gjörgæslu eftir eftir að honum var bjargað úr brennandi íbúð við Bláhamra í Grafarvogi í nótt. Í Mosfellsbæ komst fimm manna fjölskylda út úr einbýlishúsi sem brann til grunna.
„Við bíðum eftir niðurstöðu tæknideildar á eldsupptökum á báðum stöðum. Það er ekki grunur um íkveikju,“ segir Ásgeir Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi á lögreglustöðinni á Vínlandsleið í samtali við Rúv.is