Louise fór með rútu til Reykjavíkur eftir komuna til Íslands, fjölskyldan vissi ekki af ferðinni

Louise Soreda, 22 ára frönsk kona sem lögreglan lýsti eftir í morgun, fór með rútu til Reykjavíkur eftir að hafa komið með flugi til Keflavíkur frá Frakklandi. Lögreglu hefur ekki tekist að finna út hvert leið hennar lá eftir það. Louise á ekki pantaðan flugmiða frá landinu.

Lögregla hefur fengið fjölmargar ábendingar í dag um hvarf Louise en engin þeirra hefur komið að gagni við leitina. Fjölskylda hennar í Frakklandi hafði samband við lögreglu á Íslandi þegar ekkert hafði heyrst frá Louise og ekki náðist í hana.

Í frétt Vísis um málið er fjölskylda Louise sögð viti sínu fjær af áhyggjum. Þau sáu hana síðast fyrir átta dögum en slökkt hefur verið á síma hennar síðan þá. Louise virðist ekki hafa látið neinn vita að hún væri á leið til Íslands.

Þá segir einnig í fréttinni að fjölskyldan hafi ekki frétt af ferðalagi hennar fyrr en fimm dögum eftir hvarf hennar. Þau vita ekki af hverju Ísland varð fyrir valinu og eru hissa að hún hafi tekið útilegubúnað með sér, hún sé ekki mikið fyrir útilegur.

Rætt er við föðursystur Louise sem segir hana hafa skilið eitt bréf eftir. Bréfið er til föður hennar þar sem hún sagðist vera stolt af honum. Hún segir líka að Louise hafi glímt við þunglyndi um nokkurn tíma.

Síðast þegar sást til hennar var hún klædd bláum gallabuxum, brúnum fjallgönguskóm og hvítri peysu. Þá hafði hún meðferðis stóran rauðan bakpoka ásamt upprúllaðri ljósgrárri dýnu, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Þau sem hafa upplýsingar um hvar Louise er niðurkomin, eða hafa séð hana, eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444 2200. Einnig er hægt að hafa samband í gengum Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi. 

Auglýsing

læk

Instagram