Louise Soreda fundin heil á húfi: Gaf sig fram við lögreglu og mun halda ferðalaginu áfram

Louise Soreda, frönsk kona sem lýst var eftir í gær af lögreglu, er fundin heil á húfi. Hún gaf sig fram við lögregluna á Suðurlandi laust fyrir hádegi. Henni var samferða samlanda sínum og virtist hún við góða andlega heilsu. Hún mun halda ferðalagi sínu áfram.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Hér má sjá tilkynninguna í heild sinni

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur lögreglan verið að leita að Louise Soreda tuttug ára gamalli franskri stúlku sem kom til landsins laust eftir miðnætti 5. júlí sl.. Þann 7. júlí barst lögreglunni á Suðurnesjum fyrirspurn frá Interpol í París en Louise var leitað þar.  Ættingjar hennar, sem höfðu ástæðu til þess að óttast um líf hennar, óskuðu eftir að grennslast yrði um ferðir hennar hér á landi.

Fyrstu upplýsingar um komu hennar til landsins voru litlar og reyndist ekki unnt að staðsetja hana í gegnum síma eða aðra samskiptamiðla. Koma hennar til landsins var staðfest og að hún gisti á hóteli í Reykjavík í tvær nætur en hún skráði sig út af hótelinu í hádeginu 6. júlí.  Upptökur úr öryggismyndavélum bentu til þess að hún væri á ferðalagi með karlmanni sem var eins útbúin og hún, þ.e.a.s. með viðlegubúnað á bakinu.

Fjöldi vísbendinga hafa komið fram um ferðir Lousie sem bentu flestar til þess að hún væri á ferðalagi um Suðurland. Nú í morgun fengust staðfestar upplýsingar um að hún hafði greitt fyrir þjónustu 11. júlí sl. af ferðaþjónustufyrirtæki sem er með starfsemi í Þórsmörk. Nú laust fyrir hádegi gaf hún sig fram við lögregluna á Suðurlandi heil á húfi. Henni var samferða samlandi hennar og virtist hún við góða andlega heilsu.

Fjölskyldu Louise og Interpol í París hefur verið komið í samband hana og mun hún halda ferðalagi sínu áfram. Lögreglan á Suðurnesjum þakkar öllum þeim sem komu að leitinni og öllum þeim sem settu sig í samband við lögreglu með upplýsingum um ferðir Louise.

Auglýsing

læk

Instagram