Dómsmálaráðuneytið hyggst endurskoða umdeilt ákvæði í almennum hegningarlögum sem tryggir nánum aðstandendum refsileysi, jafnvel þótt þeir hindri sakamálarannsókn með því að eyðileggja eða fela sönnunargögn. Málið er nú komið í samráðsgátt stjórnvalda, en engar umsagnir hafa enn borist.
Samkvæmt 112. grein laganna er til dæmis ekki hægt að refsa móður sem eyðir gögnum til að vernda son sinn sem grunaður er um alvarlegt brot – enda telst hún „nánasti vandamaður“. Slíkt refsileysi hefur verið óbreytt frá árinu 1940 og á sér rætur í lagaákvæðum frá 19. öld.
Nú er komið að endurskoðun. Ráðuneytið bendir á að slíkar undanþágur geti torveldað rannsókn alvarlegra mála, þar sem sökudólgar komast undan refsingu ef nánir aðstandendur skemma eða fela sönnunargögn. „Ekki er útilokað að í einhverjum tilvikum leiði tálmun sakamálarannsóknar til þess að sá sem fremur afbrot komist undan refsiábyrgð,“ segir í greinargerð.
Fyrst og fremst er verið að horfa til 3. málsgreinar 112. greinar laganna, en jafnframt verður kannað hvort breyta þurfi öðrum hlutum ákvæðisins. Við undirbúninginn hefur verið litið til löggjafar á Norðurlöndunum. Í Noregi gilda strangari reglur, þar sem refsileysi nær ekki til náinna aðstandenda, en í Danmörku og Finnlandi eru reglurnar svipaðar þeim íslensku – þó með skýrari skilgreiningu á því hverjir teljast nákomnir.
Ráðuneytið telur breytingarnar í takt við stefnu stjórnvalda um að efla réttarríkið og tryggja skilvirkari meðferð sakamála. Áformin eru nú opin til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, en viðbrögð hafa látið á sér standa.