Margra ára raunir alnafna Jóns Ragnars Jónssonar

Auglýsing

„Ég skynja út frá sífellt fjölgandi símhringingum frá börnum þessa lands að Ísland Got Talent er byrjað aftur.“

Svona hljómuðu skilaboð frá lækninum Jóni Ragnari Jónssyni á Facebook-vegg tónlistarmannsins Jóns Ragnars Jónssonar í vikunni. Læknirinn Jón Ragnar hefur reglulega tekið við skilaboðum sem eru ætluð nafna sínum og nú þegar tónlistarmaðurinn Jón Ragnar er vikulega í sjónvarpinu hefur áreitið aukist.

„Ég er búinn að vera á leiðinni í mjög langan tíma að taka mig úr símaskránni og tók af skarið um daginn,“ segir læknirinn Jón Ragnar laufléttur í samstali við Nútímann. Hann er á leiðinni í sérnám erlendis en sér eflaust fram á rólegri daga þangað til.

Feður Jóns Ragnars og Jóns Ragnars, Jón og Jón, eru félagar og hafa báðir verið virkir í starfi FH. Þeir eiga því ýmislegt annað sameiginlegt en sama nafn, ljósu lokkana og milljón dala brosin.

Auglýsing

„Það er kannski ekki tilviljun að fólk ruglist á okkur. En þetta er löng saga,“ útskýrir læknirinn Jón Ragnar.

Þetta byrjaði þegar ég var 18 ára en hann er tveimur árum yngri. Ég var að vinna með skóla á pitsustað og síminn fór að hringja. Ég var spurður hvort ég væri Jón Ragnar í Verzló — ég fékk einhver sex símtöl og fimm sms það kvöld.

Söngvarinn Jón Ragnar var þá í hlutverki í leiksýningu í Verzló og stelpurnar fundu símanúmerið hjá Jón Ragnari Jónssyni, nema í Hafnarfirði, en fengu þá samband við okkar mann sem hefur ekki upplifað annað eins áreiti og þetta örlagaríka vor.

Þetta varð svo árlegur viðburður þangað til tónlistarmaðurinn Jón Ragnar flutti til Boston. Þá tók við rólegri tíð en frægðarsól söngvarans hefur risið undanfarin ár og fólk hefur því reglulega haft óvart samband við lækninn og reynt að bóka hann á árshátíðir og aðrar skemmtanir.

„Í fyrra byrjaði svo Ísland Got Talent og þá byrjuðu fimm til átta ára börn að hringja. Þetta eru rosalega unglegar raddir en ég tala nú ekki mikið við þau,“ segir Jón Ragnar og hlær.

„Þau byrja bara: „Hver er þetta!?“ og ég segi þeim að þetta sé rangt númer.“

Ísland Got Talent hófst á ný í janúar og læknirinn Jón Ragnar finnur fyrir því í gegnum símtöl og skilaboð — enda á hann ekki sjónvarp.

Misskilningurinn hefur virkað í báðar áttir. Þeir sóttu um í læknadeild Háskóla Íslands sama ár og tónlistarmaðurinn Jón Ragnar komst inn í hálfan dag. Þá höfðu þeir fengið svarbréf hvors annars send heim í pósti.

Læknirinn Jón Ragnar upplifði því nokkrar hræðilegar mínútur á meðan hann las höfnunarbréf sem var ekki ætlað honum, þegar hann taldi að hann væri kominn inn.

„Ég var byrjaður að titra þangað til ég sá að kennitalan á bréfinu var ekki mín. Hann var erlendis að spila með FH. Þannig að ég heyrði í mömmu hans og náði að skipta á bréfum.“

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram