„Margt í pistli Frosta sem kallar á skýringar“

Útvarpsmaðurinn Frosti Logason, oftast kenndur við Harmageddon, birtir fyrstu bakþankana sína í Fréttablaðinu í dag. Í bakþönkunum leggur Frosti út frá viðtali við Madsjíd Nili, sendiherra Írans á Íslandi, úr helgarblaði Fréttablaðsins. Nili veltir fyrir sér í viðtalinu hvar öfgahópar í Mið-Austurlöndin fái fjármagn og vopn. Um það skrifar Frosti:

Þarna fetar sendiherrann sömu braut og þeir sem aðhyllast vinsælar samsæriskenningar á borð við þá, að fámenn, en mjög valdaþyrst gyðingaklíka, í Bandaríkjunum sé meginuppspretta haturs og illverka í heiminum. 

Árni Svanur Daníelsson, vefprestur Þjóðkirkjunnar, vekur athygli á niðurlagi pistils Frosta sem hljómar svona:

Vont fólk mun alltaf gera vonda hluti. Síkópatar gera það líka. Þeim er ekki sjálfrátt. En til að fá gott fólk til að framkvæma þann hrylling sem við sjáum daglega í fréttum frá Mið-Austurlöndum um þessar mundir, þá þarftu trúarbrögð.

Árni segir á Facebook-síðu sinni margt í bakþönkum Frosta kalla á skýringar. „En ég hef áhyggjur af því þegar orðið trúarbrögð er notað í svona víðri og almennri merkingu um það sem betra væri að kalla bara trúarofstæki eins og Frosti gerir í upphafi greinarinnar,“ segir Árni. „Í því felst hnik sem er ekki gagnlegt fyrir umræðuna og enn síður fyrir skilning okkar á því flókna fyrirbæri sem trúarbrögðin eru.“

Bjarni Randver Sigurvinsson, stundakennari við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, segir í athugasemd við orð Frosta að skrif hans einkennist af fundamentalísku óþoli gagnvart öðrum trúarviðhorfum en hans eigin. „Það sem hann segir þarna um trúarbrögð er álíka gáfulegt eins og að segja að til að fá gott fólk til að framkvæma þann hrylling sem við sjáum daglega í fréttum frá Mið-Austurlöndum um þessar mundir, þá þarf stjórnmál,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram