Stefnt er að því að opna Mathöllina við Hlemm um helgina en margir hafa beðið í ofvæni eftir opnun. Upphaflega stóð til að opna síðasta haust sem gekk ekki eftir og var áætlaðri opnun þá frestað.
Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Mathallarinnar, segir í samtali við mbl.is að framkvæmdir séu á lokasprettinum. „Ef allt gengur áfallalaust fyrir sig munum við opna á laugardaginn,“ segir Ragnar.
Á heimasíðu Mathallarinnar segir að Hlemmur – Mathöll verði yfirbyggður matarmarkaður sem sækir innblástur í hinar rómuðu evrópsku mathallir, þar sameinast undir einu þaki tíu metnaðarfullir matarkaupmenn og veitingastaðir.
Sjö þessara staða eru tilbúnir til að opna á laugardaginn en það eru taco-staðurinn La Poblana, víetnamski staðurinn Bánh Mí, grænmetisverslunin Rabbarbarinn, Te & kaffi, veitingastaðurinn Kröst, ísbúðin Ísleifur heppni og Jómfrúin. Hinir staðirnir verða opnaðir fljótlega.