Talið er að milljónasti ferðamaður ársins 2016 lendi á Íslandi í kringum 10. ágúst næstkomandi. Hann verður því talsvert fyrr á ferðinni en í fyrra þegar sá milljónasti lenti í september. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í Morgunblaðinu að eftir næstu mánaðamót sé gert ráð fyrir að um 930.000 erlendir ferðamenn hafi komið til Íslands í gegnum Keflavíkurflugvöll.
Þá er gert ráð fyrir 240.000 ferðamönnum í ágúst, þannig að milljónasti ferðamaðurinn ætti að vera kominn í kringum 10. ágúst.
Inni í þessum tölum eru ekki þeir ferðamenn sem hingað koma til lands um aðra flugvelli, með Norrænu eða öðrum farþegaskipum. Talningar á Keflavíkurflugvelli ná til um 97% þeirra sem hingað koma.
Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið undanfarin misseri en árið 2014 var heildarfjöldi þeirra 1,1 milljón.