Minningarathöfn um Klevis Sula sem lést af sárum sínum síðastliðinn föstudag eftir að hafa verið stunginn með hnífi verður haldin við Reykjavíkurtjörn klukkan 17 næstkomandi sunnudag. Þar verður kveikt á kertum í minningu hans.
„Við hvetjum alla til að koma saman og minnast Klevis sem lést af sárum sínum eftir árás í miðbæ Reykjavíkur. Hann var fæddur 31. mars 1997 og var tekinn alltof ungur frá fjölskyldu sinni og vinum. Komum saman og sínum fjölskyldu hans alla okkar samúð, megi hann hvíla í friði,“ segir á Facebook-viðburði minningarathafnarinnar.
Klevis sem var aðeins tvítugur hafði dvalið á Íslandi í nokkra mánuði þegar hann lést en hann hafði áður dvalið hér á landi. Meintur árásarmaður, Íslendingur á þrítugsaldri, situr í gæsluvarðhaldi.