Maðurinn sem lést af sárum sínum eftir að hafa verið stunginn með hnífi á Austurvelli aðfaranótt sunnudags hét Klevis Sula. Klevis var tvítugur og hafði dvalið hér á landi um langa hríð en var albanskur að uppruna.
Andrea Zisaj, vinur Klevis, birtir færslu á Facebook þar sem hann minnist vinar síns sem frábærum náunga sem var sífellt að reyna að hjálpa fólki. „Hann fékk fólk til að brosa og var alltaf jákvæður. Hann var rólyndismaður með risastórt hjarta,“ segir Andrea og bætir við að fólk hefði átt að sjá hversu hamingjusamur Klevis hafi verið þegar hann flutti til Íslands.
Andrea segir að Klevis hafi verið að bjóða grátandi mann aðstoð sína þegar hann var stunginn. Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn situr í gæsluvarðhaldi. Annar maður, sem var einnig stunginn á sama tíma, hefur verið útskrifaður af Landspítalanum.
Andrea furðar sig á því hversu lítil viðbrögðin á Íslandi hafa verið við andláti vinar síns. „Af hverju sé ég engan óska eftir að hann hvíli í friði? Af hverju skiptir þjóðerni svona miklu máli? Hvað er öðruvísi við að vera Albandi og Íslendingur?“
Andrea beinir orðum sínum til þeirra sem hafa slæmt álit á fólki frá Albaníu. „Við erum manneskjur eins og þið sjáið í speglinum á hverjum morgni. Eigum við ekki virðingu ykkar skilið vegna heimalands okkar?“
Andrea biður fólk um að deila orðum sínum og tekur fram í lokin að hann elski Ísland og Íslendinga. „En ég skrifa þetta með tárin í augunum.“
Fjársöfnun er hafin til styrktar fjölskyldu Klevis svo hægt sé að flytja jarðneska leifar hans heim til Albaníu. Styrktarreikningurinn er á nafni frænda hans, Krist Ismailaj, og eru reikningsupplýsingarnar eftirfarandi: 0528-14-405642 kt. 310194-3879.