Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að ef þróunin verði svipuð og áður, megi búst við að næsta gos verði enn stærra. Það gæti jafnvel orðið allt að þrjátíu prósentum stærra en síðasta gos sem var það stærsta á Sundhnúksgígaröðinni til þessa. Þetta segir Benedikt í samtali við RÚV.
„Það er mjög varasamt að spá fyrir um það, en ef þetta hagar sér eins og þetta er búið að haga sér undanfarið, þá má búast við að það verði gos sem er kannski 30% stærra að rúmmáli heldur en síðasta, og það nái kannski 80 milljón rúmmetrum.“
Nútíminn greindi frá því að landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram með svipuðum hraða og síðustu vikur. Jarðskjálftavirkni hefur aukist lítillega síðustu daga, þó ekki mikið eða um fimm skjálftar á dag á kvikuganginum. Sá stærsti mældist 1,5 að stærð.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að lærdómur af fyrri kvikuhlaupum og eldgosum nýtist við að meta hversu mikið magn af kviku þarf að bætast við undir Svartsengi til að koma af stað næsta atburði. Það tímabil þar sem auknar líkur eru taldar á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi markast af neðri og efri óvissumörkum.
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram: Gæti gosið á ný í byrjun nóvember