Gæsluvarðhald yfir manni sem er grunaður um að hafa orðið hjónum í Neskaupstað að bana í lok ágúst hefur verið framlengt um fjórar vikur.
Gæsluvarðhaldið átti að renna út í dag en í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi kemur fram að fallist hafi verið á áframhaldandi gæsluvarðhald til 6. október.
Líkt og Nútíminn greindi frá þá var fallist á kröfu lögreglunnar á Austurlandi að maðurinn myndi gangast undir geðrannsókn en hann hafði kveikt í húsi sínu fyrr á þessu ári í Neskaupstað.
„Djöfullinn“ sagði honum að kveikja í húsinu
Samkvæmt heimildum Nútímans kveikti maðurinn í húsinu því „djöfullinn“ sagði honum að gera það. Til að halda því til haga þá gerðist þetta í febrúar á þessu ári. Fjölskylda mannsins hafði fyrir þann tíma og síðan þá reynt að fá hann nauðungarvistaðan á geðdeild en kom allstaðar að lokuðum dyrum í heilbrigðiskerfinu.
Ekki er langt síðan hann var á geðdeild en þá fékk hann að ganga út eftir aðeins tvo daga – hann fékk „gæðastimpil“ frá geðdeildinni sem þýðir að hann var metinn hvorki hættulegur sjálfum sér eða öðrum. Maðurinn hafði þá verið nauðungarvistaður samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 en 18. til 27. grein þeirra laga fjallar sérstaklega um nauðungarvistun einstaklinga vegna geðræns ástands eða annarra ástæðna sem krefjast verndar þeirra sjálfra eða annarra.
Þeirri ákvörðun var harðlega mótmælt af hálfu fjölskylda mannsins enda hafði hún lengi varað við því að maðurinn væri bæði hættulegur sjálfum sér og öðrum ef hann myndi ganga laus í því ástandi sem hann var í á þeim tíma.