Netflix skikkað til að opna á efni innan ESB, Ísland fær ekki að vera með

Íslenskir rétthafar hafa ekkert heyrt um hugmyndir Evrópusambandsins um að skikka Netflix til að bjóða notendum sínum innan ESB upp á sömu kvikmyndir og þætti, óháð landfræðilegri staðsetningu.

Evrópuþingið vinnur nú að reglugerð sem bannar efnisveitum á borð við Netflix að nota IP tölur fólks til greina hvar það er staðsett. Í staðinn þurfa efnisveitur að nota rafræn skilriki, greiðsluupplýsingar, heimilisfang eða aðrar upplýsingar til að staðsetja fólk.

Breytingin hefur verið túlkuð þannig að öll ríki Evrópusambandsins fái aðgang að sama efni, nái lagasetningin fram að ganga. Í samtali við breska dagblaðið Independent segir talsmaður Netflix að breytingin verði aðeins til þess að fólk geti horft á efnið sem er í boði í heimalandinu þegar það ferðast til annarra landa.

Talsmaðurinn tekur þó fram fyrirtækið hafi ekki séð reglugerðina í heild sinni og bætir við að notendur Netflix hafa þegar aðgang að efninu sem er í boði í heimalandinu þegar þeir ferðast til annarra landa.

Í umfjöllun Independent kemur fram að reglugerðin gæti þýtt að Netflix og öðrum efnisveitum verði óheimilt að loka á efni milli landa innan ríkja Evrópusambandsins.

EES-samningurinn skuldbindur Ísland og önnur ríki innan EES til að innleiða afleidda löggjöf frá ESB sem fellur innan sviðs EES-samningsins. Ekki liggur fyrir hvort umrædd lög nái til Íslands.

Úrvalið fyrir íslenska notendur Netflix er ansi fátæklegt miðað við önnur lönd en íslenskir rétthafar, þeir sem eiga réttinn á efninu sem er dreift á Netflix, hafa þó ekkert heyrt um væntanlega lagasetningu ESB.

Nútíminn hafði samband við FRÍSK, félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði ásamt Sam-félaginu, Senu og Myndform. Þar á bæ hafði enginn heyrt um lagasetninguna. Íslenskir Netflix-notendur virðast því þurfa að sætta sig áfram við minna úrval en víða annars staðar.

Í fyrra hóf Netflix að loka á notendur sem beittu krókaleiðum til að fá aðgang að efni í öðrum löndum. Margir Íslendingar notuðu til dæmis þjónustu frá aðilum á borð við Playmo.tv til að fá aðgang að Netflix í Bandaríkjunum og Kanada. Í dag hefur Netflix tekist á loka á flestar aðila sem bjóða upp á þessa þjónustu.

Auglýsing

læk

Instagram