Nýjasta lag Robbie Williams reitir Rússa til reiði, segir lagið ekki vera um Pútín

Nýjasta lag breska söngvarans Robbie Williams, Party like a Russian, hefur vakið töluverða reiði í Rússlandi. Hann neitar því að lagið fjalli um Vladimir Pútín, forseta landsins.

Textinn fjallar um valdamenn í samfélaginu sem njóti lífsins fram í fingurgóma á kostnað alþýðunnar, drekki vodka og noti eiturlyfið MDMA. Tónlistarmyndband við lagið var frumsýnt á föstudag.

Fjallað hefur verið um lagið í mörgum fjölmiðlum í Rússlandi og er gjarnan vitnað í óánægða Rússa sem eru ósáttir við þá mynd sem söngvarinn málar upp af landsmönnum.

Í upphafi lagsins er segir að það þurfi ákveðna gerð af manni með ákveðna gerð af orðspori til að draga fé frá allri þjóðinni og byggja sína eigin geimstöð. Þarna hefur verið talið að Williams sé að vitna í Pútín en hann tekur fyrir það.

„Þetta lag er klárlega ekki um Pútín,“ sagði hann á Twitter. Í viðtali við blaðið Sun sagðist hann ekki vera að gera grín að neinum. Sagði hann textann vera vísun í hvað Rússar eru „fáranlega góðir í að skemmta sér.“

Auglýsing

læk

Instagram