Nýr forseti verður á Facebook

Guðni Th. Jóhannesson, nýr forseti Íslands, hyggst nota Facebook. Þetta tilkynnir Guðni á Facebook-síðu sinni í dag.

Margir þjóðhöfðingjar halda úti Facebook-síðu til að gefa fólki innsýn í störf sín. Barack Obama Bandaríkjaforseti er til að mynda með tæplega 50 milljónir fylgjenda á Facebook-síðu sinni sem er uppfærð mjög reglulega.

„Ég stefni að því að nota fésbókina til að kynna verkefni og viðburði í hinu nýja starfi,“ sagði Guðni á Facebook í dag.

Nútíminn ræddi við Guðna í lok júní um möguleikann á því að nota Facebook í nýja starfinu. Þá hafði hann ekki tekið ákvörðun en eins og dagskrá forseta sýnir er starfið annasamt og því fróðlegt að fá að fylgjast betur með. Guðni hélt úti öflugri Facebook-síðu í kosningabaráttunni sem rúmlega 21 þúsund manns hafa lækað.

Aðspurður svaraði Guðni því að hann hafi ekki leitt hugan að því hverju hann myndi vilja koma á framfæri skyldi hann opna Facebook aðgang forseta.

„Ég hef fylgst með facebook-síðu Baracks Obama og hans síða væri ágætis fyrirmynd en hafa þarf í huga að þar á bakvið er mikið fjölmennara starfslið og allt annað umhverfi. Við sjáum til, ég lofa engu,“ sagði Guðni þá.

Auglýsing

læk

Instagram