Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú umferðarslys sem átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar þrjú, sem nær yfir Kópavog og Breiðholt. Þar var ekið á gangandi vegfaranda – en ökumaðurinn stöðvaði ekki heldur ók á brott frá slysstað.
Þolandi var fluttur á slysadeild með áverka, en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um líðan hans að svo stöddu. Ökumaðurinn hefur ekki fundist og er málið í rannsókn.
Þjófnaður, eignaspjöll og ölvunarakstur
Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að tilkynningar bárust um þjófnað í tveimur verslunum – annars vegar í Hlíðunum og hins vegar í hverfi 108. Í seinna tilfellinu var talsverðu magni af vörum stolið, en gerandinn fannst ekki þrátt fyrir leit.
Þá var brotist inn í stofnun í miðborg Reykjavíkur þar sem hurð var brotin upp og skemmdir unnar innan dyra. Málið er enn til rannsóknar.
Lögregla sinnti einnig hefðbundnu umferðareftirliti og stöðvaði meðal annars ökumann sem ók á 125 km/klst þar sem hámarkshraði er 80. Ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og var hann handtekinn á vettvangi.