Ólafur Sæmundsson, næringarfræðingur segir umtalaða glæru tekna úr samhengi

Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur við Háskólann í Reykjavík, segir í samtali við Vísi.is að glæra sem hann sýndi á fyrirlestri fyrir unga knattspyrnuiðkendur í Víkingi hafi verið tekin úr samhengi. Egill Einarsson gagnrýndi Ólaf harðlega fyrir glærurnar eins og Nútíminn greindi frá í morgun.

Sjá einnig: Egill hjólar í virtan næringarfræðing „Ef ég ætlaði að drepa einhvern myndi ég setja hann á þetta mataræði“

Fram kemur í frétt Vísis að Ólafur hafi verið að fara yfir það hvernig mataræði sem hentar einum hópi henti ekki endilega öðrum. Hann sýndi matardagbók sonar síns Sæmundar Ólafssonar, frjálsíþróttamanns, því til stuðnings. Ólafur valdi handahófskenndan dag þar sem sonurinn fékk að ráða hvað hann borðaði.

Ólafur segist í samtali við Vísi hafa bent á að ef venjulegur maður myndi borða sama mat og sonur hans þennan tiltekna dag þá myndi sá maður fitna.

Egill Einarsson, einkaþjálfari birti mynd af matseðlinum á Twitter og sagði marga íslenska næringarfræðinga vera á villigötum. „Þetta snýst ekkert bara um þennan tiltekna mann, það eru svo margir næringarfræðingar sem eru að predika svipaða hluti og ljóst að þeir þurfa að girða sig,“ sagði Egill meðal annars.

Ólafur segist í samtali við Vísi hafa látið þjálfara hjá Víkingi hafa glærurnar sem hafi svo endað í dreifingu og verið teknar úr samhengi. 

Auglýsing

læk

Instagram