Ólafur Stefánsson vinnur að appi

Handboltakappinn Ólafur Stefánsson hefur tekið sér tímabundið leyfi frá þjálfun karlaliðs Vals í handbolta þar sem nýstofnað fyrirtæki hans kallar á mikla viðveru, samkvæmt tilkynningu frá Valsmönnum. Ólafur kemur því ekki að þjálfun liðsins til áramóta.

Nýstofnað fyrirtæki Ólafs vinnur að hönnun apps sem hann hefur unnið að um nokkurt skeið, samkvæmt heimildum Nútímans. Ólafur ræddi um appið við kvikmyndagerðarmanninn Ragnar Hansson í Áhugavarpinu á hlaðvarpsrásinni Alvarpinu í mars. Þar sagði hann meðal annars frá hvernig hann skráir ýmislegt í lífi sínu niður í dagbók og hvernig appið er rökrétt framhald á því:

„Þetta er ekki bara Flappy Bird, þar sem maður bara hoppar. Þú þarft að hafa aðeins fyrir því að setja inn og hægt og hægt verður til þín dagbók eða þínar hugsanir. Ímyndaðu þér að þú værir búinn að halda dagbók í tíu ár og þú gætir bara kallað upp til dæmis allt með heimspeki og allt með dauða. Eða allt um systur mína sem tengist gleði. Þú getur kallað þetta fram á fjölda máta.“

Ólafur segist vera búinn að læra mikið á vinnunni við appið. „Sjáum til. Ég veit ekki hvort þetta er markaðsvænt eða ekki,“ segir hann. „Ég hef enga forritunarþekkingu og enga viðskiptaþekkingu. Þetta getur farið í tómt rugl, sko. En fokk, hvað ég er búinn að læra á því.“

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Ólaf í Áhugavarpinu.

Auglýsing

læk

Instagram