25 ára bandarísk kona hefur stigið fram og lýst martröðinni sem hún lifði af eftir að hafa verið hrottalega nauðgað og barin næstum til dauða í Miami af manni sem reyndist ólöglegur innflytjandi og síbrotamaður með langa brotasögu.
Jenny, líkamsræktarkennari frá Kentucky, var á Spring Break (vorfríi) þegar hún var rænd og dregin inn í hús af ókunnugum manni sem réðst á hana með miklu ofbeldi. Hún lifði árásina af en þurfti fjölda aðgerða til að endurbyggja andlitið og limina eftir gríðarleg meiðsli.
DNA tengdi árásina við síbrotamann
Rannsókn leiddi í ljós að árásarmaðurinn var Junior Joseph, 28 ára maður frá Haítí, sem hafði verið í Bandaríkjunum ólöglega eftir að vegabréfsáritun hans rann út. Hann hafði áður verið handtekinn fyrir heimilisofbeldi, innbrot, fíkniefnabrot og árásir á lögreglu, en fékk engu að síður að ganga laus.
„Það er ótrúlegt að svona maður hafi verið á götunni,“ sagði Jenny í viðtali við Daily Mail. „Hann var stöðugt handtekinn og sleppt aftur – þar til það endaði með því að ég næstum dó.“

Lítið barn var lífsbjörgin
Jenny sagði frá atburðunum í myndbandi sem birt var af hópnum The American Border Story (TABS). Hún hafði verið skilin eftir ein af vinkonu sinni eftir rifrildi og varð fyrir árás þegar hún gekk ein heim. Manninum tókst að flytja hana inn í hús þar sem hann beitti hana miklu ofbeldi og nauðgaði henni. Að lokum tókst henni að komast út, og lítið barn í næsta húsi kallaði á hjálp.
Jenny var flutt á sjúkrahús þar sem hún gekkst undir aðgerðir til að laga kjálka, kinnbein og tennur. Hún hefur síðan gengist undir fjölda skurðaðgerða og sálfræðimeðferð til að vinna úr áfallinu.

Árásarmaðurinn fluttur úr landi
Þrátt fyrir að Joseph hafi verið ákærður fyrir nauðgun, mannrán og líkamsárás, var hann fluttur úr landi til Mexíkó tveimur mánuðum áður en réttarhöldin áttu að hefjast. Yfirvöld í Miami sögðu brottflutninginn hafa komið þeim í opna skjöldu og gáfu út handtökuskipun sem hefur lítið að segja þar sem hann er horfinn.
Jenny segir að málið sýni hversu illa bandaríska innflytjenda- og dómskerfið virki. Hún óttast enn að árásarmaðurinn snúi aftur, en segist staðráðin í að segja sögu sína til að vekja athygli á því sem hún kallar „þjóðarskömm“.