today-is-a-good-day

Ómögulegt að taka þátt í Eurovision án þess að brjóta reglurnar

Það er óhætt að segja að hljómsveitin Hatari sé byrjuð að vekja athygli og það virðist stefna í að atriði þeirra verði eitt það umtalaðasta í tengslum við Eurovision í ár. Breski miðilinn Independent birti langt og ítarlegt viðtal við Hatara í dag, en þetta er fyrsta viðtal sveitarinnar við breskan miðil. Þar tjáðu Hatarar sig meðal annars um pólitíkina í atriði sínu.

„Maður skrifar undir samning þar sem kemur fram að maður megi ekki vera pólitískur í keppninni, en ef einhver heldur að hann sé að fara til Tel Aviv án pólitískra yfirlýsinga gæti viðkomandi ekki haft meira rangt fyrir sér,“ segir Matthías Haraldsson við breska miðilinn. „Það er þversögn, vegna þess að öll lögin sem verða flutt á þessu sviði eiga eftir að móðga marga vegna samhengisins við staðsetningu keppninnar og þeirrar lögmætu gagnrýni sem hefur verið lögð fram. Það er í sjálfu sér brot á reglum Eurovision. Þú getur ekki farið til Tel Aviv og komið fram á þessu sviði án þess að brjóta reglur Eurovision.“

Matthías segir að þetta gildi um alla sem taka þátt og að bætir við að það að þegja um ástandið sé risastór pólitísk yfirlýsing í sjálfu sér. Hann segir einnig að af því að keppnin fer fram í Ísrael hafi Hatari enn frekar viljað taka þátt og segir að meðlimum sveitarinnar finnist pólitíkin þar og víða annars staðar passa mjög vel við viðfangsefni Hatara, sem sé „dystópískt leikhúsatriði sem endurspeglar ofbeldi, hatur og bælingu“. Hann bendir líka á að vald sveitarinnar felist í að geta vakið upp umræðu.

Klemens Hannigan bætir við að hann skilji vel hvers vegna margir kusu að sniðganga Eurovision í ár.

Alvöru hljómsveit

Blaðamaður Independent bendir sérstaklega á að hljómsveitin Hatari sé ólík mörgum öðrum keppendum í Eurovision, því þarna sé um að ræða alvöru hljómsveit sem hefur verið starfandi og var ekki sett saman sérstaklega fyrir keppnina, heldur sé að taka þátt í henni að gamni sínu. Hann segir líka að sveitin hafi náð til margra ólíkra hópa vegna þess að tónlistin sé í raun og veru góð og myndböndin þeirra og tónleikarnir séu rafmagnaðir.

Ætla að gera ábreiðu af Euphoria

Þegar Hatarar lýsa tónlistinni sinni segja þeir að „Hatrið mun sigra“ sé popplag og minnast líka á að þeir séu að vinna í ábreiðu af lagi Loreen, Euphoria, sem vann keppnina árið 2012.

„Við lifum fyrir þessar mótsagnir,“ segir Matthías. „Ég er karlmannlegur, Klemens er kvenlegur, ég er bældur, Klemens tjáir sig mikið, ég er harður, hann er mjúkur, ég öskra, hann syngur, ég er stífur, hann dansar. Við leikum okkur með þessar mótsagnir.“

Auglýsing

læk

Instagram