Önnur sería af Svörtu söndum staðfest

Önnur sería af spennuþáttaröðinni Svörtu sandar er í bígerð, en þetta var staðfest af framleiðslufyrirtækinu All3Media International og birti Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður tilkynninguna á Instagram-síðu sinni í morgun. Líkt og áður verður Baldvin við stjórnvölinn á annarri seríu og verða þættirnir sýndir á Stöð 2 í framleiðslu Glassriver.

Fregnirnar koma í kjölfar þess að þættirnir verða sýndir á kvikmyndahátíðinni Lübeck Nordic Film Days í Þýskalandi í byrjun nóvember. Þættirnir hafa einnig hlotið nýverið alþjóðadreifingu í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Á meðal kaupenda eru streymisveiturnar Viaplay, Alibi og stórrisinn Disney+.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by baldvinz (@baldvinz)

Svörtu sandar var nefnd á meðal þeirra þáttaraða sem hafi staðið upp úr í ár á kvikmyndahátíðinni Berlinale í ár og var seld alþjóðlega af All3Media, sem er stórt alþjóðlegt sölu- og framleiðslufyrirtæki með starfsemi víða um heim og í eigu Warner Bros. og alþjóðlega fjarskiptarisans Liberty Global.

Fyrri serían fjallar um Anítu, þrítuga lögreglukonu, sem neyðist aftur á æskuslóðirnar sem hún flúði fyrir 14 árum. Þegar Aníta kemur í bæinn finnst lík ungrar konu við sandfjöruna, sem virðist hafa hrapað af bjarginu fyrir ofan ströndina. Rannsókn á málinu hefst ásamt núverandi lögreglustjóranum Ragnari, þorpslækninum Salomon og lögregluteyminu á staðnum. Ekkert saknæmt virðist hafa átt sér stað fyrr en vinkona hinnar látnu finnst seinna um kvöldið, hrakin og alblóðug.

Á meðan rannsóknin heldur áfram að vinda upp á sig endar Aníta í miðju eldheits ástarþríhyrnings sem er ekki að einfalda málin fyrir henni. Það kemur í ljós að lögreglan á staðnum hefur ekki sinnt rannsóknum sem skyldi og möguleg tengsl eru á milli fleiri mála. Uppgjör við móður hennar er óumflýjanlegt. Aníta sogast niður dimman hyl fortíðar í leit að mögulegum fjöldamorðingja og uppgjörið breytist í martröð.

Aldís fer sjálf með aðalhlutverkið í þáttunum. Með önnur helstu hlutverk fara Þór Tulinius, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Ævar Þór Benediktsson og Kolbeinn Arnbjörnsson.

 

Auglýsing

læk

Instagram