Páll Óskar setur Nokia 6110 símann á sýningu

Laugardaginn 14. mars verður sýningin „Páll Óskar – Einkasafn poppstjörnu“ opnuð í Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Palli fagnar 45 ára afmæli sínu tveimur dögum síðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í Fréttablaðinu kemur fram að Páll Óskar hafi safnað öllu síðan Rocky Horror var sýnt árið 1991. „Ég hef ekki hent neinu síðan þá,“ segir Páll Óskar:

Ég ætlaði fyrst að geyma þetta heima hjá mér en þegar þau hjá Rokksafninu spurðu hvort ég ætti ekki eitthvað dót, þá gaf ég þeim þetta allt. Loksins fær þetta að njóta sín í fallegu rými.

Á sýningunni verða flestir búningar sem Páll hefur klæðst á ferlinum til sýnis ásamt gömlum tímaritum, viðtölum, teikningum, listaverkum, skari, auglýsingum, vinnudagbókum og dagatölum.

Rúsínan í pylsuendanum er svo Nokia 6110 sími sem Páll notaði í 14 ár.

Í Fréttablaðinu kemur einnig fram að hægt verði að tylla sér niður og hlusta á gamlar og sjaldgæfar upptökur, bæði af tónlist hans og útvarpsþáttunum sem hann stýrði eitt sinn, „Sætt og sóðalegt“ og „Dr.Love“.

„Þarna geta gestir líka fiktað í fullt af tökkum og hljóðblandað lögin mín upp á nýtt. Það verður líka hægt að fara í lítið hljóðver þar sem þú velur þitt uppáhaldslag með mér, velur tóntegund, syngur það og færð upptökuna senda í tölvupósti, með myndbandi. […] Við ætlum að gera þessa sýningu eins skemmtilega og fjölbreytta og frekast er unnt,“ segir Páll Óskar í Fréttablaðinu.

Auglýsing

læk

Instagram