Viðskiptamaðurinn Quang Le hefur stefnt Landsbankanum vegna þess að hann hefur ekki fengið að stofna til bankaviðskipta frá því rannsókn hófst á viðskiptaumsvifum hans í mars í fyrra. Þetta kemur fram í gögnum sem mbl.is hefur undir höndum.
Le hefur verið til rannsóknar vegna gruns um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi. Eignir hans hafa verið frystar og hann segist ekki hafa getað þegið laun eða greiðslur í um eitt og hálft ár.
Bankareikningur sé mannréttindi
Í stefnu hans kemur fram að Landsbankinn hafi slitið viðskiptum við hann eftir fjölmiðlaumfjöllun og skráð hann í innlend og alþjóðleg fjármálakerfi sem grunaðan um peningaþvætti. Hann hafi síðan leitað til allra helstu banka á Íslandi, en án árangurs.
Le heldur því fram að bankinn hafi brotið á mannréttindum sínum. Í tölvupósti sem hann sendi Landsbankanum segist hann einfaldlega vilja fá reikning til að geta lifað af:
„Ég þarf hann til að lifa af – enginn getur lifað án bankareiknings á Íslandi.“
Í stefnu er því haldið fram að bankareikningur sé ekki forréttindi heldur grundvallarréttur borgaranna: án reiknings sé hvorki hægt að fá greidd laun né greiða fyrir grunnþjónustu.
Breytti nafni sínu í Davíð Viðarsson til að sleppa við vesen: Dæmdur í áframhaldandi gæsluvarðhald
Segir um kynþáttamisrétti að ræða
Le, sem er með íslenskan ríkisborgararétt en upprunninn frá Víetnam, heldur því einnig fram að bankabannið byggist að hluta á kynþætti hans. Hann bendir á að Íslendingar „hvítir á hörund“ hafi ekki sætt sambærilegu banni í svipaðri stöðu.
Stjórnarformaðurinn fyrir dóm
Málið verður þingfest í dag, 11. september 2025, og mun Jóni Þorvarði Sigurgeirssyni, stjórnarformanni Landsbankans, gefa skýrslu.