Rækta tonn af banönum á ári á Reykjum

Fjölmargir ferðamenn og aðrir sem hafa áhuga á landbúnaði heimsækja garðyrkju­deild Land­búnaðar­há­skóla Íslands á Reykj­um við Hvera­gerði til að skoða banana sem eru ræktaðir þar. Tonn af banönum er ræktað árlega.

Vefurinn The Modern Farmer fjallar um bananaræktunina í dag og ræðir við Elías Óskars­son á Reykj­um í Ölfusi. „Fullt af fólki kemur bara til að skoða. Þetta er orðið frægt. Þau sjá ekki endilega mikið af banönum en þau eru hrifin af aðstöðunni,“ segir hann.

Um 100 ban­ana­plönt­ur eru í gróður­hús­inu að Reykj­um og skil­ar hver þeirra ein­um klasa á ævi­skeiði sín­u, samkvæmt umfjöllun Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins á dögunum. Þar kemur fram að upp­sker­an fæst árið um hring, en strax þegar henni er náð þarf að fella plönt­urn­ar. Nýj­ar spretta svo upp af rót­ar­stofni, en þumalputta­regl­an er sú að eitt og hálft ár líði fá því fyrsti sprot­inn kem­ur upp úr mold­inni uns ban­an­arn­ir, gul­ir og þroskaðir, eru tínd­ir af plöntu.

Samkvæmt umfjöllun Modern Farmer er um tonn af banönum ræktað á Reykjum árlega. Ekki má selja bananana þannig að starfsfólk og nemar fá að borða þá.

„Við getum ekki hent þessum plöntum — þetta eru einu bananaplönturnar á Íslandi!“ segir Elías. „Þetta er eini staðurinn í heiminum þar sem þessi tiltekni bananastofn er til. Það mætti segja að tíminn hafi staðið í stað.“

Auglýsing

læk

Instagram