Ragnhildi Gyðu boðið að berjast við risavaxna glímukonu: „Hef ekki lent í slag frá því í 5. bekk“

Vaxtaræktarkonunni Ragnhildi Gyðu Magnúsdóttur var á dögunum boðið að mæta bardagakonunni Gabi Garcia á bardagakvöldi í desember á vegum Rizin Fighting Federation í Japan. Eina vandamálið er að Ragnhildur hefur ekki lent í slag frá því í fimmta bekk. Þetta kemur fram á vef MMA frétta.

Sjá einnig: Vaxtarræktarkona tjáir sig opinskátt um steranotkun

Ragnhildur Gyða keppir í vaxtarækt, á nokkur Íslandsmet í kraftlyftingum og vann titilinn sterkasta kona Íslands árið 2013. Á vef MMA frétta kemur fram að Gabi Garcia sé ein besta gólfglímukona heims og margfaldur heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu. Hún sneri sér nýlega að blönduðum bardagalistum og hefur unnið alla bardagana sína þrjá.

„Í fyrsta lagi hef ég aldrei á ævinni æft neinar bardagaíþróttir og lenti síðast í slag að mig minnir þegar ég var í 5. bekk,“ segir Ragnhildur á vef MMA frétta sem hafnaði boðinu.

Upphæðin fyrir þetta þyrfti allavega að vera ansi há til að maður myndi mögulega íhuga þetta og að allt yrði borgað undir mann – flug, matur, gisting og samgöngur.

Í skilaboðunum sem Ragnhildur fékk frá fulltrúa bardagasamtakanna Riza kemur fram að Garcia sé svo stór að erfitt hafi reynst að finna handa henni andstæðinga. Hún er 186 sentimetrar á hæð og 111 kíló.

„Þetta yrði svona Davíð vs. Golíat þar sem ég er bara 168 cm á hæð og rétt tæplega 80 kg á góðum carb-up degi. En má svo sem alveg taka þessu sem hrósi ef gaurinn hélt í alvörunni að ég væri 110+ kg,“ segir Ragnhildur á vef MMA frétta.

Smelltu hér til að lesa nánar um málið á vef MMA frétta.

Auglýsing

læk

Instagram