Reyndi að stinga lögregluna af: Ók dópaður yfir umferðareyju

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf ökumanni merki um að stöðva bifreið sína í nótt en henni var ekið á 150 kílómetra hraða á klukkustund. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að stinga hana af. Það gekk ekki betur en svo að ökumaðurinn ók yfir umferðareyju og var bifreiðin óökufær eftir óhappið.

Ökumaðurinn var handtekinn og hefur lögregla hann grunaðan um kstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Er hann nú vistaður í fangageymslu uns ástand hans skánar svo hægt sé að ræða við hann.

En það var ekki eini ökumaðurinn sem ók undir áhrifum í gærkvöldi og í nótt því lögreglan fékk tilkynningu um umferðarslys í hverfi 110. Um var að ræða minniháttar meiðsli en þar var ökumaðurinn einnig grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sá var sömuleiðis vistaður í fangageymslu lögreglu uns ástand hans skánaði svo hægt sé að ræða við hann.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu við að vísa í burtu unglingahóp af veitingastað í hverfi 108 og tilkynnt um innbrot og þjófnað í heimahúsi í hverfi 201. Ein líkamsárás var tilkynnt en hún átti sér stað í hverfi 111. Þar var einn einstaklingur fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar.

Auglýsing

læk

Instagram