Segir ofstækisfullt að vilja að kveikja í bókinni Þjóðaplágan Íslam

Félagið Tjáningarfrelsið sendi hátt í þúsund manns bókina „Þjóðaplágan Íslam“ eftir norska rithöfundinn Hega Storhaug í vikunni. Þau sem fengu bókina eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast með meistara- eða doktorsgráðu úr háskólum landsins í sumar. Tjáningarfrelsinu bárust fjármunir sem var safnað til þess að gefa bókina til hópsins.

„Eitthvað af þessu fólki er svo gasalega bilað að það ætlar að henda bókinni, það ætlar að kveikja í henni. Þetta sýnir alveg ótrúlegan fábjánaskap. Það getur verið ósammála en það að vera svona oftækisfullt að vilja frekar kveikja í henni en að lesa hana, það sýnir á hversu hættulegu ferðalagi þjóðin er,“ segir Valdimar H. Jóhannesson, formaður Tjáningarfrelsisins.

Sjá einnig: Senda þúsund manns bókina Þjóðaplágan Íslam, vilja fræða um „helsta vandamál heimsins“

Hverjir voru það sem styrktu verkefnið?

„Það eru menn sem vilja gjarnan stuðla að því að þessi bók komist til flestra, þeir telja að hún eigi erindi við sem flesta. Þetta sé efni sem okkar varðar á þessum tímamótum,“ segir Valdimar.

Við þurfum að vita hvað hefur verið að gerast hjá öðrum þjóðum varðandi innflutning á fólki sem hefur íslam sem lífssýn. Þetta fólk þekkir til í þessum löndum og blöskrar andvaraleysi Íslendinga.

Hann segir að íslam sé sambærilegt við nasisma. „Við erum ekki í stríði við múslima, við erum í stríði við íslam,“ bætir hann við. „Við viljum ekki horfast í augu við að þessu fylgir vandamál, við erum að taka við fólki, það er að boða lífssýn sem er í andstöðu við þá viðteknu lífssýn sem hér gildir.“

Bókin var einnig send til allra Alþingismanna og segir Valdimar að langfæstir þeirra hafi lesið hana.

Félagið Tjáningarfrelsið telur um 15 til 20 manns og var það stofnað vegna útgáfu bókarinnar hér á landi.

Auglýsing

læk

Instagram