Thelma Rut Jóhannsdóttir, verðandi móðir og nemandi á öðru ári í íþróttafræði – og heilsufræði við Háskóla Íslands segir verðandi foreldrum við skólann mismunað. Í pistli sem Thelma Rut skrifar á vef Vísis varpar hún ljósi á erfiða stöðu verðandi foreldra og kallar eftir breytingum.
„Ekki nóg með að vera barnshafandi í námi og undirbúa komu barnsins í heiminn, þá hafa verið gerðar óraunhæfar kröfur til mín sem fær mig til að spyrja; er raunverulegt jafnrétti til náms við Háskóla Íslands?“ skrifar Thelma og bendir á að engin undanþága er veitt frá tímasókn til verðandi foreldra sem þurfa að sækja mæðravernd.
Thelma segir verðandi mæður á vinnumarkaði hafa mun meira svigrúm til að fara í nauðsynlega tíma sem tengjast meðgöngunni. „Þetta mun hafa veruleg áhrif á einkunnagjöf mína, og stend ég nú frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort ég þurfi að segja mig úr áföngum, þar sem ekki er hægt að koma til móts við mig,“ skrifar Thelma.