Segist vita um tíu tilfelli þar sem stuðningsfulltrúinn á að hafa brotið kynferðislega á börnum

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður drengs sem kærði starfsmann barnaverndar fyrir gróf kynferðisbrot á árunum 2004 til 2010, segist vita um tíu tilfelli þar sem maðurinn á að hafa brotið kynferðislega á börnum. Þetta kemur fram á mbl.is.

Sævar segir á mbl.is að fólk lýsi málsatvikum og segist kannast við manninn. „Þetta eru einstaklingar sem virðast hafa verið í hans umsjá og einstaklingar sem virðast hafa fjölskyldutengsl við manninn. Þetta eru allt í allt tíu tilvik sem ég veit um núna,“ segir hann á mbl.is.

Hann hvetur þau sem hafa einhverjar upplýsingar til að hafa samband við lögreglu.

Maðurinn situr í gæsluvarðhaldi grunaður um alvarleg kynferðisbrot en hann var kærður fyrir samskonar brot fyrir fimm árum. Málið var fyrnt og látið niður falla en yfirmenn hans hjá Barnavernd Reykjavíkurborgar fengu ekki að vita af kærunni fyrr en í síðustu viku.

Maðurinn var kærður í ágúst síðastliðnum fyrir að hafa á árunum 2004 til 2010 brotið gróflega gegn ungum pilti. Hann var þá stuðningsfulltrúi piltsins og tveggja systkina hans og síðan hafa systkinin einnig borið vitni um kynferðisofbeldi mannsins í sinn garð.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður drengsins sem lagði fram kæru í ágúst, sagðist í samtali við mbl.is í gær oftar en einu sinni hafa ítrekað kæruna áður en lögregla tók málið loks til skoðunar. „Það kom fram í kærunni að maðurinn starfaði með börnum og væri í því hlutverki sem hann var í. Það gerðist ekkert fyrr en ég ýtti á eftir þessu,“ segir Sævar í samtali við mbl.is

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því í gær að maðurinn hefði hins vegar ekki verið handtekinn fyrr en nú í janúar. Vinnuveitendur hans hjá Barnavernd Reykjavíkurborgar fengu að vita af málinu í síðustu viku.

Yfirmaður mannsins á skammtímaheimili fyrir unglinga segir í samtali við Vísi að málið algjörlega til skammar. „Það er skandall að svona grunur hafi komið upp fyrir mörgum árum síðan og enginn veit af því,“ sagði Sigurður Hólm, forstöðumaður hjá Barnavernd Reykjavíkur í samtali við Vísi.is.

Maður sem er á fimmtugsaldri hefur starfað með börnum og unglingum í um tuttugu ár í gegnum störf sín hjá Reykjavíkurborg.

Auglýsing

læk

Instagram