today-is-a-good-day

Seldu tíu ára gamla 66°Norður-úlpu á 70 þúsund krónur: „Sá sem keypti hana vantaði samt bara úlpu“

Félagarnir Pétur Kiernan og Stefán Bjarki Ólafsson hafa opnað sölusíðuna Brodir Store á Instagram þar sem þeir selja notuð föt. Þeir flytja sjálfir inn vörur ásamt því að taka að sér að selja föt frá öðrum en á dögunum seldu þeir gamla 66°Norður úlpu á 70 þúsund krónur.

Pétur segir í samtali við Nútímann salan á úlpunni hafa komið honum á óvart. „Við fengum senda mynd af úlpunni og ég persónulega hafði aldrei séð svona úlpu áður,“ segir hann.

Það kom mér samt mjög á óvart hversu mikið fékkst fyrir úlpuna. Mér fannst ólíklegt að hún myndi seljast á 70 þúsund en það tók ekki langan tíma. Ég hugsa að hún sé um tíu ára gömul, gamaldags merkjavara og nánast ónotuð en sá sem keypti hana vantaði samt bara úlpu.

Pétur segir augljóst að það sé góðæri á Íslandi. „Dýrir hlutir eru að fara hratt, hettupeysur og skór að seljast á tugi þúsunda,“ segir hann en þeir félagar hjá Brodir Store hafa selt um sjötíu hluti frá því að síðan fór í loftið í byrjun mars. „Annars er síðan svo nýbyrjuð og þá er mikið af fólki sem vill selja.“

Brodir Store tekur um 10 til 20 prósent af verði vörunnar í söluþóknun en Pétur. „Fólki virðist finnast þægilegt að hafa einhvern millilið þegar það kaupir af öðru fólki og hlutirnir virðast seljast betur þannig, segir hann. „Ég er sjálfur búinn að finna fyrir því að ég hef selt hluti sjálfur sem ég bjóst ekki við að geta selt.“

Pétur segir að svipaðar sölusíður séu til alls staðar í heiminum en að hingað til hafa þær ekki verið til á Íslandi. „Þetta er mjög gaman — en ég myndi ekki segja að það væri hægt að lifa á þessu,“ segir hann.

Pétur hvetur fólk til að kíkja í fataskápana heima hjá sér og senda þeim myndir af flíkum sem það myndi vilja selja. „Ég myndi segja fólki að athuga hvort það eigi eitthvað sem er svona í líkingu við það sem er inn á síðunni okkar,“ segir hann.

„Merkjavörur eru mjög vinsælar á Íslandi. Fólk sem á gamlar, vel meðfarnar merkjavörur ættu mjög auðvelt með að selja þær.“

Auglýsing

læk

Instagram