Ekkert hefur spurt til Arturs Jarmoszko, 26 ára Pólverja sem er búsettur hér á landi, í tíu daga. Fjölskylda hans hefur gert allt sem hún getur til þess að finna hann síðustu daga, leitað upplýsinga og rætt við alla sem þekkja hann en án árangurs. Þau tilkynntu hvarf hans til lögreglunnar í gær.
Artur er 186 sentímetrar á hæð, með græn augu og stutt, dökkt hár. Hann gæti verið klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.
Síðast er vitað um ferðir Arturs í miðborg Reykjavíkur rétt fyrir miðnætti 1. mars síðastliðinn. Elwira Landowska, frænka Arturs, segir í samtali við mbl.is að fjölskyldan hafi leitað á líklegum stöðum og þarf sem síðast sást til hans. Hún segist ekki vita hvort ástæða sé til að ætla að hann hafi farið úr landi.
Artur hefur búið á Íslandi í nokkur ár og búa tveir bræður hans einnig hér á landi. Foreldrar hans búa aftur á móti í Póllandi.
Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs eru beðin um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.