today-is-a-good-day

Síðustu atkvæðin hugsanlega ekki talin fyrr en á sunnudag, veður gæti haft áhrif

Síðustu atkvæðin í Alþingiskosningunum verða hugsanlega ekki talin fyrr á sunnudaginn. Niðurstöður hafa oft legið fyrir að morgni sunnudags eða seint um nóttina en verði þetta raunin verður það heldur seinna.

Yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi er viðbúin því að hugsanlega þurfi að fresta talningu einhvers hluta atkvæða úr kjördæminu, geri veður og færð það að verkum að ekki verður hægt að flytja kjörgögn, til dæmis af Austurlandi, á talningarstað á Akureyri á laugardagskvöldið.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Veðurspá fyrir norðanvert landið gefur tilefni til að ætla að staða sem þessi gæti komið upp, því spáð er snjókomu og síðar slyddu um norðanvert landið á laugardag.

Norðausturkjördæmi nær yfir svæðið frá Siglufirði suður á Djúpavog og eru kjósendur tæplega þrjátíu þúsund. Á Austfjörðum eru kjörstaðir að jafnaði opnir til kl. 22. Þaðan eru kjörkassar með atkvæðaseðlum til Egilsstaða og þaðan með flugvél til Akureyrar.

Yfirleitt hefur vélin farið í loftið um miðnætti og þá er hægt að byrja að telja atkvæðin á Akureyri um kl. 1 um nóttina. Nú gæti aftur á móti verið tvísýnt með flug og ef flytja þarf kjörgögn til Akureyrar með bíl tekur það langan tíma ef færð er ekki góð, segir umfjöllun um málið í Morgunblaðinu.

Auglýsing

læk

Instagram