Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir, er búsett á Ísafirði og gengur með tvíbura. Von er á börnunum í heiminn fyrstu vikuna í janúar en ekki er hægt að fæða tvíbura þar í bæ. Hún þarf því að verja jólum og áramótum í höfuðborginni. Sigþrúður hefur þurft að fara margar ferðir til Reykjavíkur á meðgöngunni en kostnaðurinn hleypur á hundruðum þúsunda. Vísir.is greinir frá þessu.
Haft er eftir Erlu Rún Sigurjónsdóttir, einu ljósmóðirnni sem búsett er á Vestfjörðum að sjúkrahúsið á Ísafirði sé ekki í stakk búið til þess að taka við því sem kalla mætti áhættufæðingum. Til þess þurfi bæði barna- og fæðingarlækna í bæinn.
Sigþrúður er nú stödd í Reykjavík, ein og bíður þess að maðurinn hennar og barn komi suður svo hægt sé að halda jólin. Hún segir það hafa verið kostnaðarsamt að þurfa að fara svo oft til Reykjavíkur en ekki er greitt fyrir ferðir maka og gisting er að litlu leyti niðurgreidd.
„Það fylgir því mikið tekjutap að vera fyrir sunnan og það er ástæða þess að maðurinn minn er enn að vinna. Þessi kostnaður er nokkuð mikill og því reynum við að lágmarka tekjutapið eins mikið og kostur er,“ segir Sigþrúður í samtali við Vísi.