Síminn berst við 365 um Meistaradeildina

Síminn hyggst berjast við 365 um sýningarréttinn á Meistaradeild Evrópu, sem verður boðinn út á næstunni. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag.

Þriggja ára tímabil verður boðið út, frá 2015 til 2018. Kostnaðurinn hleypur á hundruðum milljóna og fresturinn til að skila inn tilboði rennur út mánudaginn 22. september. Meistaradeildin hefur verið sýnd á Stöð 2 Sport undanfarin ár og Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, staðfestir í viðtali við Fréttatímann að fyrirtækið ætli að bjóða í réttinni.

Þetta er líklega dýrasta og stærsta íþróttaefnið í heiminum og við höfum að sjálfsögðu áhuga á að bjóða okkar viðskiptavinum upp á það áfram.

Hvorki RÚV né Skjárinn munu bjóða í réttinn en búast má við að Síminn, móðurfélag Skjásins, blandi sér í baráttuna. Ku það vera til að svara aukinni sókn 365 inn á fjarskiptamarkaðinn en nýjasta dæmið um það er væntanlegur samruni við Tal.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri markaðssetningar- og vörusviðs Símans segir í samtali við Fréttatímann að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að bjóða í Meistaradeildina. „Þetta er spennandi réttur en það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um að bjóða í hann,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram