Sindri Þór lýsir flóttanum í viðtali við New York Times: Fór á puttanum til Keflavíkur

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu að Sogni í apríl og flúði, land lýsir flóttanum í ítarlegri umfjöllun á vef New York Times. Hann segir að Sogn sé eins og hótel miðað við fangelsi í Amsterdam, þar sem hann hann hefur dvalið undanfarna daga.

Mál Sindra hefur vakið athygli víða um heim og hefur hann fengið viðurnefnið The Bitcoin Bandit. Sindri er grunaður um aðild að þjófnaði á um 600 tölvum úr þremur gagnaverum í Reykjanesbæ. Tölvurnar voru útbúnar til að grafa eftir Bitcoin rafmynt og eru ófundnar.

Sindri vildi ekki ræða um þjófnaðinn á tölvunum, sem hann er grunaður um, í umfjöllun New York Times. Hann segist sjá mikið eftir því að hafa strokið úr fangelsinu að Sogni og segist hafa áttað sig á því um leið og hann lenti í Svíþjóð og myndin af honum var komin í fjölmiðla um allan heim. „Ég var lystarlaus og með stöðugan hnút í maganum,“ segir Sindri í umfjöllun New York Times.

Ég var vonsvikinn út í sjálfan mig fyrir að láta fjölskyldu mína þjást og stressaður yfir því að einhver myndi þekkja mig úti á götu.

Sindri er væntanlegur til landsins í dag. Hann lýsir flóttanum í umfjöllun New York Times og segist hafa byrjað að skoða flug erlendis um klukkan 23, kvöldið sem hann strauk. Hann bókaði svo flug undir nafni annars manns.

Sindri opnaði gluggann, flúði fangelsið og gekk tæplega tvo kílómetra að þjóðvegi 1. Þaðan segist hann hafa farið á puttanum til Keflavíkur þar sem hann tók leigubíl upp á flugvöll. Lögreglan hefur hingað til talið að vitorðsmaður hafi sótt hann.

Frá Stokkhólmi fór hann með lest, leigubíl og ferju til Þýskalands í gegnum Danmörk. Þar hitti hann að eigin sögn „einstaklinga“ sem keyrðu hann til Amsterdam. Þar var hann aðeins í þrjá tíma áður en lögreglan gómaði hann eftir ábendingu frá vegfarendum.

„Ég var bara á röltinu þegar það gerðist,“ segir hann. Sindri segist hafa verið tveimur dögum frá því að flytja til Spánar ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum þegar hann var handtekinn fyrir tölvuþjófnaðinn.

Auglýsing

læk

Instagram