Skálmöld fór aftur í hljóðver til að laga eina málvillu

[the_ad_group id="3076"]

„Þar sem búið var að syngja allar raddir inn á upptökurnar og allt saman því nokkuð meitlað í stein er auðvitað talsverð skurðaðgerð að leiðrétta svona lagað,“ segir Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textahöfundur þungarokkhljómsveitarinnar Skálmöld.

Skálmöld er á lokametrunum með nýja plötu sem kemur út í október. Snæbjörn vaknaði upp við vondan draum á dögunum þegar hann taldi að allt væri að verða klárt en hann sjálfur og fjölmargir aðrir voru búnir að lesa textana yfir án athugasemda. Það var þó ein hindrun eftir. Ein málvilla hafði slysast í bæklinginn og í upptökurnar:

Ég hef haft það sem reglu í gegnum árin að láta stórvin minn og glæsimennið Sævar Sigurgeirsson alltaf lesa síðustu próförk. Hann vinnur með mér á auglýsingastofunni PIPARTBWA, er með mér í Ljótu hálfvitunum og er almennt alger höfuðsnillingur. Fyrir utan að vera fullkomlega skotheldur þegar kemur að bragfræði, yfirlestri og íslensku almennt þekkjumst við líka svo vel eftir tíu ára vináttu að hann vílar ekki fyrir sér að rífa verkin mín í sig og benda á það sem betur ætti að fara.

Skömmu áður en platan átti að fara í framleiðslu fékk Snæbjörn yfirlesið skjal frá Sævari. „Hann hafði að venju hnýtt örlítið í eitthvað smálegt, kommusetningu hér og bandstrikalengd þar,“ segir Snæbjörn. Neðst í skjalinu kom stóra sleggjan:

Þú getur ekki haft orðið „sprund“ í kvenkyni, það er bannað.

Snæbjörn segir að hann hafi vitað að orðið sé hvorugkynsorð. „En ég stóð á því fastar en fótum að það væri líka til í kvenkyni,“ segir hann. „Ég fletti mig gegnum sirka 340 bækur og kembdi internetið í heild sinni í leit að haldreipi en það fannst auðvitað ekkert. Þetta er bara bull og bannað. Og hvað þá? Þarna lá línan bara og öskraði á mig:“

Gleymdu því ekki hvað gerðist, því sprundin
er glötuð og hvergi í ljóðstafi bundin.

[the_ad_group id="3077"]

Snæbjörn var ráðþrota. „Mér datt í hug í örvæntingu að við gætum prófað að drekkja söngnum bara í rafmagnsgítar með hljóðblöndun og láta hann þannig heyrast ógreinilega,“ segir hann. „Við gætum svo bara breytt textaskjalinu og horft í hina áttina. Ég sendi þetta skömmustulegur á Flex upptökustjóra og Björgvin söngvara. Þeir bentu mér bara góðlátlega á að ég væri fáviti og fundu síðan næsta lausa tíma til að taka þessar línur upp aftur:“

Gleymdu því ekki hvað gerðist, því sprundið
er glatað og hvergi í ljóðstafi bundið.

Snæbjörn segir að þetta hafi verið dýrt spaug og klaufalegt. „En rétt skal vera rétt. Skálmöld gerir aldrei neitt 99% og þar fyrir utan hefði ég ekki sofið heilan nætursvefn næsta árið ef þetta hefði sloppið út. Næst þegar við gerum plötu fær Sævar að lesa allt yfir áður en við syngjum fyrsta orðið, svo mikið er víst.“

Auglýsing

læk

Instagram