Snapparar tókust á um ilmkúlur, matarolíu og spritt: „Þetta var bara til að fella mig“

Samfélagsmiðlar loguðu um helgina eftir að snapparinn og bloggarinn Sólrún Diego gagnrýndi notkun ilmkúlna í þvottavélum og notkun matarolíu og spritts við þrif á Snapchat. Hún hefur veitt fylgjendum sínum innsýn inn í heimilisþrif sín og gefið þeim ráð.

Þau sem hafa fylgst með Sólrúnu (solrundiego) og snapparanum Sigrúnu Sigurpálsdóttur (sigrunsigurpals) áttuðu sig mörg á því að gagnrýni þeirrar fyrrnefndu sneri að Sigrúnu.

Nútíminn hafði samband við Sólrúnu og Sigrúnu og bað þær um að útskýra umræðu helgarinnar. Sólrúnu vildi ekki tjá sig um málið en það var Sigrún aftur á móti til í að gera.

Ilmkúlur. Matarolía. Spritt. Um hvað snýst málið?

Sigrún segist í samtali við Nútímann hafa verið á leiðinni til Reykjavíkur á föstudaginn þegar hún fékk skilaboð frá einum af fylgjendum sínum á Snapchat. „Hann spyr hvort það geti verið að Sólrún Diego sé að drulla yfir þrifaráðin mín,“ segir Sigrún en hún hafði kvöldið áður verið að fjalla um ediksblöndu með matarolíu og sprittblöndu á samfélagsmiðlinum.

Hún fór inn á Snapchat og hlustaði Sólrúnu.

„Þar byrjar hún að tala um ilmkúlurnar sem ég hef verið að dásama og þær hafa í kjölfarið selst upp í Nettó. Hún fer að tala um að þær skemmi þvottavélar og tvær hafi eyðilagt þvottavélar og þetta sé baneitrað fyrir fólk með exem. Hún notar samt mýkingarefni,“ segir Sigrún.

Sigrún segist hafa fengið fréttir af því að Sólrún hafi sagt fólki að ilmkúlurnar sem Sigrún hefur mælt með stífli þvottavélar og gert ráð fyrir að hún myndi einnig ræða um þetta á Snapchat.

„Ég var búin að tala við birgjann hérna heima þannig að ég hefði eitthvað í höndunum,“ segir Sigrún. Hún telur að það hafi farið í taugarnar á Sólrúnu að ilmkúlurnar hafi notið slíkra vinsælda eftir meðmæli hennar að þær hafi selst upp og því sé hún að gagnrýna kúlurnar á þennan hátt.

Sólrún notar ediksblöndu við þrif á heimilinu og hefur fjallað mikið um hana, bæði á blogginu Mamie.is og á snappinu sínu. Sigrún hefur einnig notað ediksblöndu við þrif en nýlega setti hún tvær matskeiðar af matarolíu út í blönduna og sagði frá því á Snapchat. Segir hún Sólrúnu einnig hafa komið inn á það.

„Hún segir að það þurfi ekki háa greindarvísitölu til að átta sig á því að olía eyðileggur við. Þarna kom önnur þvílík steypa,“ segir Sigrún og bætir við að mælt sé með því að bera olíu á við til að viðhalda honum. „Ég skil ekki tilganginn með þessu, þetta var bara til að fella mig.“

Sigrún notar útþynnt spritt til að þrífa rúður og spegla og kom Sólrún einnig inn á þrif með spritti.

„Hún bað fólk vinsamlegast um að nota þetta ekki ef það væri með börn á heimilinu. Spritt hefur verið notað til þrifa í mörg ár. Þetta er svo mikil þvæla,“ segir Sigrún. „Hún sagði líka að fólk gæti alveg eins farið út í búð og keypt baneitraða Ajax-blöndu.“

Sigrún telur að þarna hafi afbrýðissemi Sólrúnar spilað inn í, Sólrún hafi ekki þolað að fólk væri farið að nota blöndu sem Sigrún var að mæla með. Þá hafi fólk verið farið að senda Sólrúnu skilaboð á Snapchat og spyrja hana hvort hún væri að nota blönduna.

Þrjú þúsund fylgjendur bættust við hjá Sigrúnu um helgina

Sigrún segist telja að þetta sé í fyrsta skipti sem íslenskur snappari tekur annan snappara hér á landi fyrir á þennan hátt. „Mér sárnaði rosalega, hún var að reyna að gera svo lítið úr mér,“ segir Sigrún.

Henni bárust hátt í fjögur hundruð skilaboð frá fólki um helgina vegna málsins og bættust þrjú þúsund fylgjendur við. Sigrún segist aftur á móti vita til þess að Sólrún hafi misst fullt af fylgjendum vegna málsins. „Ég myndi aldrei reyna að lítillækka neinn eða drulla yfir neinn á mínu snappi,“ segir hún.

Nútímanum leikur forvitni á að vita hvort þær hafi rætt saman um helgina.

„Ég sendi henni skilaboð, spurði hana hvort það væri ekki allt í lagi hjá henni, hvort hún væri að kalla mig heimska,“ segir Sigrún. „Ekki heimska, mér finnst þetta bara heimskulegt,“ svaraði Sólrún þá Sigrúnu.

„Þetta var mjög leiðinlegt, þegar ég spurði hana út í þetta kom hún dónalega fram við mig,“ segir Sigrún.

Auglýsing

læk

Instagram