Guðrún Veiga tekur áskorun frá vinkonu sinni: „Hef ekki hreyft mig síðan Ingólfur nam land“

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, ein af vinsælustu snöppurum landsins, ætlar að fara 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst og bregst þannig við áskorun frá vinkonu sinni sem glímir við hvítblæði. Vinkonan skoraði á Guðrúnu Veigu að hlaupa með sér í viðtali við mbl.is og tók Guðrún Veiga áskoruninni á Snapchat. Eins og fylgjendur hennar vita er hún lítið fyrir hreyfingu og verður þetta því töluverð áskorun fyrir hana.

Sjá einnig: Guðrún Veiga og Guðmundur eignuðust dóttur í morgun: „Hún er rosalega fín, næstum fjögur kíló“

„Ofursnapparinn Guðrún Veiga ætlar að fara með mér. Hún á bara etir að skrá sig. Með því að nefna það hérna í viðtali á mbl.is þá kemst hún eiginlega ekki hjá því,“ sagði Hildur Karen Sveinbjarnardóttir í samtali við mbl.is. Hún greindist með bráðahvítblæði í nóvember á síðasta ári. Hún dvelur í Svíþjóð þar sem hún er að jafna sig eftir mergskipti. Hildur ætlar að hlaupa fyrir Minningarsjóð blóðlækningadeildar Landspítalans og mun Guðrún Veiga gera slíkt hið sama.

Guðrún Veiga segist í samtali við Nútímann ætla að klára kílómetrana tíu þó að að hún þurfi að skríða yfir marklínuna. Hún er ekki aðeins að hhlaupa fyrir minningarsjóðinn, hún segist líka vera að hlaupa fyrir Hildi Karen.

„Ætli Hildur Karen endi ekki á því að bera mig yfir – hún dró mig einu sinni á Esjuna í orðsins fyllstu, það þurfti bókstaflega að halda í höndina á mér og draga mig. Vælandi og hálfdauða. En málefnið er gott og í mark fer ég – sama þó að það verði í örmum einhvers, á fjórum fótum eða í sjúkrabíl,“ segir hún.

Guðrún Veiga ætlar að æfa sig fyrir hlaupið. „Ég æfi mig sennilega eitthvað, ætli ég byrji ekki bara á morgun. Hef ekki hreyft mig síðan Ingólfur nam land þannig að það er mikið verk fyrir höndum,“ segir hún kát.

Hér er hægt að heita á Guðrúnu Veigu. 

Auglýsing

læk

Instagram