Dalvíkingurinn Snorri Eldjárn Hauksson hefur heldur betur slegið í gegn sem tónlistarmaður í Kólumbíu eftir að myndband af honum syngja kólumbíska þjóðlagatónlist fór sem eldur í sinu um Kólumbíu í lok síðasta árs. Myndbandið fékk yfir 300 þúsund áhorf og eftir það þróuðust málin hratt. Snorri er nú staddur í Kólumbíu á tónleikaferðalagi.
Snorri eyddi þremur mánuðum í Kólumbíu árið 2016 þar sem hann kynntist þessari tegund tónlistar en hann hefur alltaf haft ástríðu fyrir spænsku og tónlist frá suður Ameríku. Það var svo í heimsókn í lok árs 2017 sem myndbandið af Snorri fór á netið og hjólin fóru að snúast.
„Það var Facebook-síðan Peppa la costeña sem setti myndbandið á vegginn sinn og vinabeiðnirnar fóru að hrannast inn. Ég ákvað að nýta mér tækifærið og hlóð upp öðru myndbandi af sjálfum mér að syngja einn með gítarinn.,“ segir Snorri í samtali við Nútímann.
Við getum orðað þetta þannig að þetta var eins og Kaleo gerði með Vor í Vaglaskógi
Eftir að myndbandið af Snorra fór í dreifingu í Kólumbíu settu margir þarlendir fjölmiðlamenn sig í samband við Snorra og tóku hann í viðtal. Það var svo einn þeirra sem Snorri réð til sín sem umboðsmann áður en hann fór í tónleikaferðalagið.
„Ég sagði honum að ég ætlaði að ferðast um Kólumbíu í tónleikaferðalag og ég vildi að hann yrði umboðsmaður minn. Síðan þá hefur mikil vinna farið í það að gera þetta tónleikaferðalag,“ segir Snorri.
Eftir að Snorri kom út hafa fjölmiðlar hreinlega keppst við að fjalla um hann. „Ég er búinn að fara í viðtöl við alla helstu fjölmiðla Kolumbíu, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Ég fór t.d í morgunspjallþáttinn Muy Buenos Días en það er einn vinsælasti sjónvarpsþáttur landsins,“ segir Snorri.
Ferðalag Snorra er rétt að byrja en hann hefur spilað á einum tónleikum í landinu til þessa. „Það er rúmur mánuður eftir og ég á eftir að syngja í 8 borgum. Ef vel gengur og eftirspurnin eykst er aldrei að vita nema ég verði aðeins lengur,“ segir Snorri að lokum en meðal borga sem hann mun koma fram í eru Medellín og Bogotá.